27. mars. 2016 10:00
Íslendingar eyða hærri upphæð í áfengi á hverjum mánuði eftir því sem þeir eldast. Frá þessu var greint í frétt á vef Kjarnans. „Samkvæmt tölum frá Meniga, sem byggja á neysluhegðun um 50 þúsund Íslendinga, eyðir eldra fólk, 66 og yfir, um 11.700 krónum í Vínbúðinni á mánuði að meðaltali. Enginn aldurshópur eyðir eins miklu og neysla eykst eftir því sem fólk verður eldra,“ segir í fréttinni. Þar segir að auki: „Gögn Meniga byggja á fjárhagslegum 16 milljón færslum 50 þúsund notenda sem veltu um 84 milljörðum króna árið 2015. Meniga greinir ekki eftir heimilum, heldur meðaltalsnoktun einstaklinga.“
Yngsti aldurshópurinn, 16 til 25 ára, eyðir lægstu upphæð allra aldurshópa á mánuði hverjum í Vínbúðinni, eða fimm þúsund krónum. Þar telja vitanlega ekki þeir sem eru undir tvítugu og ekki hafa náð áfengiskaupaaldri. Næst lægstri mánaðarlegri upphæð eyða þeir í áfengi sem eru 26 til 35 ára, þá aldurshópurinn 36 til 45 ára og svo koll af kolli. „Þetta er einn af fáum vöruflokkum þar sem útgjöld aukast jafnt og þétt með aldrinum,“ segir í fréttinni.