Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
28. mars. 2016 11:00

Notar Mystery Skype til að lífga upp á kennsluna

Theódóra Friðbjörnsdóttir kennir 5. bekk í Grunnskóla Snæfellsbæjar í Ólafsvík. Hún hefur frá áramótum notað Mystery Skype til kennslu í landafræði. Mystery Skype er leikur sem byggir á samskiptaforritinu Skype, sem gerir fólki kleift að eiga vídjósamtal, þ.e. tala saman en einnig fylgjast hvort með öðru gegnum vefmyndavél.

Áður en leikurinn getur hafist finna kennarar tíma fyrir bekki sína að hittast, en lykilatriði er að börnin viti ekki hvar hinn bekkurinn er staddur á jarðkúlunni og er því nokkurs konar feluleikur. „Leikurinn gengur út á að láta bekkina leita að hvorum öðrum. Krakkarnir spyrja hinn bekkinn spurninga eins og til dæmis „eruð þið á Norðurlandi?“ og ef svarið er „já“ fær bekkurinn að spyrja aftur. Sé svarið hins vegar neikvætt færist svarréttur yfir,“ segir Theódóra í samtali við Skessuhorn. Sá bekkur fer með sigur af hólmi sem fyrr getur staðsett hinn. Áður en leikurinn hefst þarf að fara fram rannsóknarvinna og nokkrar spurningar þarf að undirbúa. Krakkarnir taka svo að sér mismunandi hlutverk á meðan leikurinn stendur yfir. Spyrlar sjá um að fara að myndavélinni og bera upp spurningar bekkjarins og svarfólk sér um að svara þeim spurningum sem berast. Skrásetjarar halda utan um alla þá vitneskju sem bekkurinn aflar og kortafólkið sér um að leita í landabréfabókum og á Íslandskorti. Einnig hafa verið gúgglarar, sem leita á internetinu eftir upplýsingum sem nýst gætu bekknum við leitina.

 

Horfa inn í önnur bæjarfélög

Theódóra segir börnin hafa af leiknum bæði gagn og gaman. „Krökkunum finnst þetta rosalega skemmtilegt og leikurinn getur kennt þeim ótrúlega margt. Þetta er ekki aðeins landafræðikennsla heldur líka samfélagsfræði, rannsóknarvinna og kennir þeim að vinna í hóp þar sem allir hafa afmarkað hlutverk en sameiginlegt markmið. Það næst aðeins með því að vinna saman sem ein heild og það kennir krökkunum samskipti og gagnrýna hugsun,“ segir hún. En umfram allt segir Theódóra að Mystery Skype getir gert landafræðikennsluna lifandi. „Í þessum tímum nota krakkarnir hugtök sem tengjast landafræðinni,“ segir hún og nefnir landshluta og bæjarfélög sem dæmi. „En í þessum tímum er einhvern veginn allt lifandi fyrir framan okkur á skjánum. Þarna erum við að tala við fólk sem býr annars staðar á landinu og fáum jafnvel að sjá hvernig er umhorfs út um glugga kennslustofunnar gegnum vefmyndavélina. Þá horfa krakkarnir inn í önnur bæjarfélög. Ég held að þau fái dýpri lærdóm af þessu en þau fengju gegnum hefðbundna kennslu eingöngu,“ bætir hún við.

 

Orðinn fastur liður

Aðspurð kveðst Theódóra fyrst hafa komist í kynni við Mystery Skype gegnum Hugrúnu Elísdóttur, sem er verkefnisstjóri í upplýsingatækni við Grunnskóla Snæfellsbæjar. „Hún er alveg frábær og hugmyndarík. Hún hefur verið að viða að sér alls konar öppum og hugmyndum og lætur okkur vita þegar hún rekst á eitthvað sniðugt,“ segir Theódóra. „Hún benti mér á Mystery Skype og mér fannst það mjög spennandi. Ég fór því að lesa mig til um leikinn og ákvað að haf samband við fleiri kennara, kanna áhuga fyrir þessu og í kjölfarið komum við á fyrsta fundinum. Síðan þá er þetta orðinn fastur liður í kennslunni,“ bætir hún við og þar skipta undirtektir nemenda miklu máli. „Þetta eru skemmtilegustu skóladagarnir, þegar við eigum Mystery Skype fund. Þá er mikil spenna og gleði í kennslustofunni og krökkunum þykir gaman að tala við jafnaldra sína annars staðar á landinu,“ segir Theódóra.

Hver leikur tekur um það bil 20 mínútur og spilað er einu sinni til tvisvar í mánuði. Enn sem komið er hefur aðeins verið spilað innanlands en Theódóra segir næsta skref að prófa að hafa samband við skóla erlendis. „Þegar krakkarnir verða orðnir öruggir með sig í leiknum stefni ég að því að koma á fundi við bekk í öðru landi. Þá fengju krakkarnir að spreyta sig á ensku og þá myndi enn einn lærdómurinn bætast við leikinn,“ segir Theódóra. „En það er rökrétt að byrja innanlands, svona á meðan allir er að læra á þetta, bæði nemendur og kennarar.“

Leikurinn er að sögn Theódóru gagnlegt tæki til að brjóta upp hefðbundna kennslu og segir hún að áhugasamir kennarar geti gengið í hópinn „Mystery Skype í íslensku skólasamfélagi“ á Facebook. Það sé umræðuvettvangur fyrir kennara sem hafa áhuga á að nýta sér leikinn í sinni kennslu. „Það er um að gera að kennarar séu óhræddir við að fikra sig áfram og prófa nýja hluti,“ segir Theódóra Friðbjörnsdóttir að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is