29. mars. 2016 06:00
Samband íslenskra sveitarfélaga stendur fyrir málþingi og námskeiði um jafnrétti í sveitarfélögum dagana 31. mars og 1. apríl nk. „Þessir viðburðir eru skipulagðir með vísun til stefnumörkunar Sambands íslenskra sveitarfélaga kjörtímabilið 2014-2018 þar sem segir að sambandið skuli hvetja og styðja sveitarfélögin í því að ná fram jafnrétti kynjanna í reynd,“ segir í tilkynningu frá sambandinu.
„Sérfræðingar frá sænska sveitarfélagasambandinu, SALAR, munu vera með kynningu á málþinginu 31. mars og leiðbeinendur á námskeiðinu 1. apríl. SALAR hefur um nokkra ára skeið, með fjárstuðningi frá sænska ríkinu, stutt sænsk sveitarfélög í að gera jafnréttismál sjálfbær innan sveitarfélaga. Áherslan hefur verið á að kynjasjónarmið séu samþætt inn í starfsemi sveitarfélaga og aðferðir kynjasamþættingar nýttar til að veita íbúum betri og skilvirkari þjónustu.“ Bæði málþingið og námskeiðið verður haldið á Grand hótel í Reykjavík. Skráning fer fram á vef sambandsins.