30. mars. 2016 10:00
Eins og Skessuhorn hefur áður greint frá munu tökur á stórmyndinni Fast 8 fara fram á Akranesi nú á vormánuðum. Myndin verður sú áttunda í röð Fast and the Furious myndanna sem margir kannast við og hafa gaman af.
Senn líður að tökum myndarinnar og ýmiss konar farartæki hafa skotið upp kollinum á Akranesi. Í gær óku vörubílar á vegum framleiðslufyrirtækisins inn í bæinn með bíla á vagni sem að öllum líkindum munu sjást í myndinni. Skagamenn ráku þar augun í Rússajeppa, Lödur og snjótroðara, ýmist í felulitum eður ei, við höfnina á Akranesi áður en farartækjunum var snarlega ekið inn í skemmu þar sem þau munu bíða tökudags.