30. mars. 2016 11:00
Víkingur Ólafsvík heldur áfram að styrkja lið sitt fyrir komandi keppnistímabil í Pepsideild karla í knattspyrnu. Sömdu Víkingar á dögunum við sænska varnarmanninn Pontus Nordenberg sem síðast lék með Åtvidabergs FF í sænsku úrvalsdeildinni.
Pontus er 21 árs gamall bakvörður og hefur leikið á fjórða tug leikja í sænsku úrvalsdeildinni auk fjölda leikja með yngri landsliðum Svíþjóðar.
Eins og Skessuhorn greindi frá fyrr á þessu ári samdi framherjinn Pape Mamadou Faye við Víking og mun hann leika með liðinu í sumar. Þá hefur Alfreð Már Hjaltalín endurnýjað samning sinn, en hann átti mjög gott tímabil í fyrra þegar Víkingur tryggði sér á nýjan leik sæti í deild þeirra bestu. Reynsluboltinn Einar Hjörleifsson hefur einnig samið við Ólafsvíkurliðið. Ætlar hann að taka hanskana af hillunni og vera til taks á komandi keppnistímabili.