Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
30. mars. 2016 12:00

Ljósmyndasafn Júlíusar Axelssonar fært Safnahúsi að gjöf

Nýverið var komið í Safnahúsið í Borgarnesi með verðmætar heimildir til handa Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar. Um var að ræða myndasafn Júlíusar Axelssonar sem búsettur var í Borgarnesi, en hann lést 4. febrúar sl., hátt á áttræðisaldri. Hafði hann ánafnað safninu myndum sínum eftir sinn dag. Júlíus, eða Júlli eins og hann var gjarnan kallaður, var góður ljósmyndari og hafði brennandi áhuga á að skrásetja sem mest af samfélagsviðburðum.  Var nærvera hans með myndavélina orðin sjálfsögð þar sem eitthvað var um að vera í Borgarnesi í gegnum árin. Hann hélt einnig dagbækur og var góður frístundamálari þar sem hugað var vel að heimildaskráningu í formi myndlistar.

 

Við andlát sitt ráðstafaði Júlli eigum sínum til ýmissa góðra málefna, m.a. til rekstrar Brákarhlíðar. Í minningarorðum um hann í Skessuhorninu segir Björn Bjarki Þorsteinsson forstöðumaður: „Við Júlli vorum nágrannar þegar ég var barn og ég man vel þegar við sátum og fylgdumst með gatnaframkvæmdum við Böðvarsgötuna, sennilega í kringum 1973, ég þá lítill pjakkur að horfa á þessar stóru vélar og þá kappa sem þeim stýrðu en Júlli við þá iðju sína sem mikill fjársjóður er nú í, að skrá niður minnispunkta og taka myndir. Júlli fylgdist manna best með öllum framkvæmdum í Borgarnesi í áratugi, festi á filmu og skrifaði hjá sér minnispunkta um allar framkvæmdir, hvaða menn voru við störf, tegundir vinnuvéla og áfram mætti telja.“

 

Ljóst er að það er héraðsskjalasafninu mikill fengur að fá myndasafn Júlíusar Axelssonar til sín. Það er mikið að vöxtum og verður nú mikið verkefni að búa um frumritin, skanna og skrá í gagnagrunn svo sem flestir geti notið þeirra í framtíðinni. Enn fremur eru nákvæmar dagbækur Júlla merkar heimildir. Nýtist þetta hvort tveggja strax við ritun á Sögu Borgarness sem nú er langt komin.

 

Þess má í lokin geta að svo vildi til að komið var með myndasafnið í Safnahús þann 22. mars sl. en það er einmitt formlegur afmælisdagur Borgarness þar sem staðurinn fékk verslunarleyfi þann dag árið 1867. Borgarnes á því 150 ára afmæli á næsta ári og verður þess minnst með ýmsum hætti. 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is