31. mars. 2016 10:00
Yfir páskana var haldin sýning á skírnarkjólum í Grundarfjarðarkirkju og þar kenndi ýmissa grasa. Það voru þær María Guðmundsdóttir og Dagbjört Lína Kristjánsdóttir sem höfðu yfirumsjón með sýningunni og söfnuðu saman kjólunum. „Við settum inn auglýsingu þar sem við auglýstum eftir skírnarkjólum sem tengdust kirkjunni og viðbrögðin voru framar vonum,“ sagði María í stuttu spjalli við fréttaritara. „Það var líka yndislegt að hverjum kjól fylgir falleg saga um fjölda barna sem hafa verið skírð í kjólunum og þess háttar,“ bætti María við. Sýningunni hefur verið vel tekið og er mjög fróðlegt og skemmtilegt að sjá þessa fallegu kjóla og söguna á bakvið þá. Sýningin verður opin út vikuna og hvetjum við fólk til að koma við í Grundarfjarðarkirkju og kíkja á þessa fallegu kjóla.