30. mars. 2016 01:33
Skallagrímsmenn hófu leik í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfuknattleik í gær þegar þeir heimsóttu Val. Spennustigið var hátt, enda mikið undir og gerðu bæði lið sig sek um klaufaleg mistök í upphafi leiks. Heimamenn höfðu heldur yfirhöndina í upphafi leiks en leikmenn Skallagríms voru aldrei langt undan. Valsmenn áttu góðan kafla undir lok fyrsta leikhluta en Borgnesingar svöruðu fyrir sig snemma í þeim næsta og leikurinn var í járnum það sem eftir lifði hálfleiksins. Valur leiddi þá með tveimur stigum, 38-36.
Síðari hálfleikur hófst eins og sá fyrri endaði. Jafnt var á með liðunum og þau skiptust nokkrum sinnum á að leiða. Skallagrímsmenn höfðu eins stigs forystu fyrir síðasta fjórðunginn og útlit fyrir spennandi lokamínútur. Valsmenn náðu forystunni á nýjan leik og leiddu til leiksloka. Skallagrímsmenn gerðu hvað þeir gátu til að stela sigrinum, minnkuðu muninn í tvö stig þegar aðeins mínúta lifði leiks en höfðu ekki erindi sem erfiði. Valur hafði að lokum sex stiga sigur, 80-74.
Sigtryggur Arnar Björnsson var atkvæðamestur Skallagrímsmanna með 22 stig og fimm fráköst. J.R. Cadot kom honum næstur með 17 stig og 16 fráköst. Hafþór Ingi Gunnarsson skoraði 13 stig en aðrir höfðu minna.
Úrslit leiksins þýða að Valsmenn hafa forystu í undanúrslitaviðureigninni. Liðin mætast öðru sinni næsta föstudag, 1. apríl og þá í Borgarnesi. Það lið kemst áfram í úrslitaviðureignina sem fyrr sigrar þrjá leiki.