31. mars. 2016 12:56
Snæfell lék sinn fyrsta leik í úrslitakeppni kvenna í körfuknattleik þegar liðið fékk Val í heimsókn í gær. Snæfellskonur hófu leikinn af miklu krafti og virtist það slá leikmenn Vals út af laginu, sem máttu sín lítils á upphafsmínútunum. Um miðjan annan leikhluta höfðu gestirnir bætt varnarleik sinn til muna og leikurinn var í járnum fram að leikhléi. Þá leiddi Snæfell með þremur stigum, 32-29.
Eins og svo oft áður í vetur lék Snæfell vel í þriðja leikhluta. Fyrirliðinn Gunnhildur Gunnarsdóttir var aðal konan á góðum kafla Snæfells sem náði mest 12 stiga forystu. En aftur komu Valskonur til baka. Þær skoruðu fyrstu sjö stig lokafjórðungsins og hleyptu mikilli spennu í leikinn. Þær náðu eins stigs forystu þegar fjórar mínútur voru eftir áður en Snæfell hrifsaði forskotið á nýjan leik. Lokamínúturnar voru æsispennandi og áhorfendur risu úr sætum. Snæfellskonur náðu að klára leikinn af vítalínunni og sluppu með skrekkinn því Valskonur hittu ekki úr lokaskotum sínum.
Haiden Palmer skoraði 31 stig í leiknum, tók níu fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Gunnhildur skoraði 20 stig og tók sex fráköst og Berglind Gunnarsdóttir skoraði 15 stig og tók sjö fráköst.
Næsti leikur liðanna í undanúrslitaviðureigninni verður leikinn laugardaginn 2. apríl á heimavelli Vals. Sigra þarf þrjá leiki til að komast í úrslitaviðureignina.