05. apríl. 2016 08:01
Fyrirmyndardagurinn verður næstkomandi föstudag, 8. apríl. Dagur þessi er mikilvægur liður í því að auka möguleika fatlaðs fólks á fjölbreyttari atvinnuþátttöku. Markmið fyrirmyndardagsins er að fyrirtæki og stofnanir bjóði atvinnuleitendum með skerta starfsgetu að vera gestastarfsmenn fyrirtækisins í einn dag, eða hluta úr degi. Með því fá gestastarfsmenn innsýn í fjölbreytt störf og starfsmenn fyrirtækja kynnast styrkleikum atvinnuleitenda með skerta starfsgetu.
Hér á Vesturlandi tekur Vinnumálastofnun höndum saman með Starfsendurhæfingu Vesturlands og starfsfólki vinnu- og hæfingarstaða og hafa forsvarsmenn þeirra á síðustu dögum heimsótt vinnustaði. Að sögn Guðrúnar Sigríðar Gísladóttur forstöðumanns Vinnumálastofnunar á Vesturlandi hafa viðtökur atvinnurekenda verið jákvæðar um að fá gesti í heimsókn á fyrirmyndardaginn. Í bréfi sem stjórnendum fyrirtækja hefur verið sent eru þeir jafnframt hvattir til þátttöku í þessu þarfa verkefni. Þannig leggi þau sitt af mörkum til að stuðla að fjölbreyttari samfélagi og atvinnuþátttöku sem flestra.
Á Facebooksíðu sem nefnist „Fyrirmyndardagurinn“ má fræðast nánar um verkefnið. Gleðilegan fyrirmyndar-föstudag!