06. apríl. 2016 06:01
Harpa Reynisdóttir og Jóhann Pjetur Jónsson eru bændur á Hæl í Flókadal. Á bænum eru kindur og kettir, hestar og geitur, svo fáein húsdýr séu talin. Kindastofninn á Hæl er nokkuð frábrugðinn því sem gengur og gerist til sveita landsins. Þar eru ferhyrntar ær hvorki fleiri né færri en 44 af um 220 fjár. „Fáir rækta þennan eiginleika sérstaklega en við erum sérvitur,“ segir Jóhann og brosir. "Þegar við byrjuðum búskap 1991 þá var allt hyrnt en við breyttum yfir í kollótt, svo öfgarnar ganga í báðar áttir,“ bætir hann við.
Það var síðan árið 2004 að bændurnir á Hæl eignuðust fyrstu ferhyrntu ána. „Steini í Laugabæ [Þorsteinn Júlíusson] var alltaf að reyna að fá mig til að þiggja hjá sér ferhyrnta kind en ég þráaðist við,“ segir Harpa og brosir. „En það var svo árið 2004 að við fengum nokkrar kollóttar ær frá Hauki [Engilbertssyni] á Vatnsenda. Hann laumaði með einni ferhyrntri, Skottu frá Varmalæk. Ég varð strax hrifin og þáði loks eina ferhyrnta frá Steina sem hét Grálind,“ segir Harpa og þar með hófst saga þessa óvenjulega kynbótastarfs á Hæl. „Síðan þá hefur þeim fjölgað hægt og rólega,“ segir Harpa. „Hægt og rólega?“ hváir Jóhann. „Já, eða svona. Allavega fjölgað,“ svarar Harpa og þau hlæja við.
Ættmæðurnar Grálind og Skotta voru ágætisær og miklar afurðakindur. „Báðar höfðu tíu fyrir gerð og afkvæmin skiluðu góðri þyngd,“ bætir Harpa við og flettir upp í Fjárvís. Þar kemur fram að Grálind skilaði 19,7 kg að meðaltali í fallþunga og var með 46,8 kg í lífþunga að meðaltali. Skotta var með 19,3 kg í fallþunga og 40,7 kg í lífþunga. „Það er því hægt að éta það ofan í sig að þetta sé verra fé en annað,“ segir Harpa.
Nánar er rætt við Hælshjón í Skessuhorni vikunnar og birtar myndir af ferhyrnta fénu á bænum.