07. apríl. 2016 06:01
Rúningskeppnin Gullklippurnar 2016 fer fram við Kex Hostel í Reykjavík næstkomandi laugardag kl. 14:00. Þar munu fremstu rúningsmenn landsins keppa um Gullklippurnar en keppnin er í boði Kex Hostel og Landssambands sauðfjárbænda. Keppendur verða af báðum kynjum og mun sá sem framkvæmir sneggsta og besta rúninginn standa uppi sem sigurvegari. Gullklippurnar eru fjölskylduvæn skemmtun og verður haldin í portinu fyrir aftan Kex Hostel og er hún opinn öllum, ungum sem öldnum. Á meðan keppni stendur verður boðið uppá tvíreykt sauðakjöt og harmonikkuundirleik og fleira sem glatt getur fjölskyldufólk á öllum aldri. „Sauðféð kemur úr Borgarfirði og kemur það í fylgd dýralæknis sem sér um að allt fari kindúðlega fram,“ segir í tilkynningu. Á meðfylgjandi mynd er Jón Eyjólfsson sauðfjárbóndi á Kópareykjum í Borgarfirði að lýsa keppni síðasta árs.