07. apríl. 2016 09:01
Undanfarin ár hefur húsnæði kaþólsku kirkjunnar í Stykkishólmi verið endurnýjað og búið undir nýtt hlutverk. Þar er um að ræða gömlu leikskólabygginguna og systrahúsið sem hefur verið breytt í hótel og menningarmiðstöð og verður rekið undir nafninu Hótel Fransiskus. Kapellan og íbúðir presta, sem eru sambyggð hinum byggingunum, voru einnig endurnýjaðar á þessum tíma.
Föstudagurinn 1. apríl var mikill gleði- og hátíðardagur kaþólsku kirkjunnar á Íslandi þegar Davíð B. Tencer Reykjavíkurbiskup og Hans-Josef Becker, erkibiskup í Paderborn, vígðu og blessuðu kirkjuna og önnur húsakynni Hótel Fransiskus. Þar með lauk formlega byggingarframkvæmdum sem hafa staðið yfir í nærri þrjú ár. Hótel Fransiskus er ætlað að vera mennta- og ráðstefnumiðstöð kirkjustarfsins en einnig hótel sem er opið gestum og gangandi sem vilja njóta hvíldar og kyrrðar og hinnar fögru náttúru Vesturlands og Vestfjarða.
Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.