08. apríl. 2016 06:01
Frá 1. til 10. apríl eru 20 nemendur úr Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi ásamt tveimur kennurum í Slóvakíu. Ferðin er farin í tengslum við verkefni sem styrk er af EES og EFTA auk þess sem slóvensk stjórnvöld styrkja verkefnið. Að sögn Finnboga Rögnvaldssonar kennara er viðfangsefni ferðarinnar sjálfbærni og sjálfbær orkuöflun, en í nóvember á síðasta ári komu jafn margir Slóvakar hingað og ferðuðust um landið og fræddust um orkuöflun og orkunýtingu á Íslandi. Auk þess að fjalla um sjálfbærni og orkuöflun kynnist hópurinn menningu og siðum þessara tveggja þjóða.
Eftir áramótin hefur íslenski hópurinn setið áfanga um sjálfbærni sem tengist beint samstarfsverkefninu við Slóvakíu. „Unga fólkið er núna á hóteli í Terchova nærri landamærunum að Póllandi en í upphafi ferðar var gist í Vrbové þaðan sem flestir Slóvakarnir eru og samstarfs skólinn, sem heitir J. B.Magina, er. Veðrið hefur leikið við ferðalangana, nú er 23 stiga hiti og sól í Terchova og spáð svipuðu veðri næstu daga. Eftir að hafa skoðað kastala og kynnst nánasta umhverfi Terchova eru krakkarnir núna að vinna verkefni tengd viðfangsefninu. Í gær var farið með kláfi upp í meira en 1500 metra hæð á tindinn Chleb sem er 1646 m yfir sjávarmáli. Í lok ferðarinnar verður Bratislava, höfuðborg Slóvakíu, skoðuð en þar búa um 600 þúsund manns,“ segir Finnbogi.