Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
09. apríl. 2016 08:00

"Maður lærir svo mikið af því að kenna öðrum“

Dagbjört Lína Kristjánsdóttir kennir stærðfræði í 5. og 6. bekk í Grunnskólanum í Grundarfirði. Hún hefur lengi beitt vendikennslu í sínu starfi og um allnokkurt skeið falið nemendum sínum að búa til vendikennslumyndbönd. „Þetta er þannig að í lok hvers kafla, til upprifjunar, þá læt ég börnin búa til vendikennslumyndbönd um efni kaflans, sem þau síðan varpa upp á skjáinn og kynna fyrir samnemendum sínum,“ segir Lína í samtali við Skessuhorn. Með því taka nemendur sæti kennarans. „Kennarinn er sá sem er alltaf að miðla þekkingu og útskýra hluti fyrir öðrum. Með því að láta nemendur fara í hlutverk kennarans þá miðla þeir sinni vitneskju, þeir læra mikið af því að kenna það sem þeir eru sjálfir að nema. Mergur málsins er sá að maður lærir svo mikið af því að kenna öðrum,“ segir hún.

 

Lína segist skipta nemendum upp í hópa og leyfa þeim að hafa svolítið frjálsar hendur varðandi það hvernig þau kjósa að búa til kennsluefni sitt. Þau geta stuðst við ýmis öpp sem finna má í spjaldtölvum grunnskólans, til dæmis Explain Everything, Educreations, iMovie og Book Creator. Einnig segir Lína að nemendur hafi farið aðrar og enn óhefðbundnari leiðir. „Þar sem þau hafa nokkuð frjálsar hendur hefur margt skemmtilegt og gott komið út úr þessu í gegnum tíðina, eina skilyrðið er að þau fari svolítið afsíðis til að taka upp myndböndin til að fá frið í upptökum á tali. Einu sinni endaði hópur í geymslu skólans að taka upp. Þar nýttu krakkarnir sér ýmsa hluti sem þau fundu til að útskýra almenn brot,“ nefnir hún sem dæmi.

 

Ófeimin við að nýta sér tæknina

Aðspurð segir Lína að börnin láti vel af vendikennslumyndböndunum og að þau hafi gefist mjög vel í bland við hefðbundnari kennslu. Einnig læri þau margt annað en stærðfræði þó að hún sé viðfangsefni myndbandanna. „Þegar myndböndin eru tilbúin varpa þau þeim upp á skjáinn og kynna fyrir samnemendum sínum. Þannig læra þau að koma fram og tjá sig, eins og sagt er til um í aðalnámskránni,“ segir hún og bætir því við að börnin læri að miðla þekkingu sinni og læra af reynslu annarra. „Þau eru dugleg að deila reynslunni og ónísk að leyfa öðrum að nýta sínar hugmyndir, sem er svo hollt því það er gott að leyfa hugmyndum að vaxa,“ segir Lína. Þá sé einnig mikil hugmyndavinna falin í gerð myndbandanna og einnig oft og tíðum leikræn tjáning, sem ekki er alltaf tengd við stærðfræði. „Þannig að það er heilmikil sköpun fólgin í þessari vinnu,“ segir hún og bætir því við að mikil ánægja ríki meðal barnanna þegar sýna á afrakstur erfiðisins.

 

Auk þessa verkefnis notar Lína einnig tölvuleikinn Minecraft í samfélagsfræðikennslu. Þar skapa nemendur hennar veröld Leifs heppna. Það er því morgunljóst að Lína er ófeimin við að nýta tæknina í sína þágu við kennsluna. „Að mínum dómi ber okkur kennurum skylda til að fylgja á eftir tækniframförum. Við verðum að vera óhrædd við að koma með eitthvað nýtt inn í kennslustofuna jafnvel þó við þurfum sjálf að læra á það,“ segir hún og bætir því við að krakkarnir séu svo klárir að prófa sig áfram þegar kemur að tækninýjungum að kennarar geti einfaldlega lært af þeim. „Aðalatriðið er að vita hvernig maður ætlar að leggja kennsluefnið inn, maður lærir bara á tæknina síðar,“ segir Lína og kveðst hvergi nærri hætt að svipast um eftir spennandi nýjungum. „Ég er bara rétt að byrja. Ég stefni á að verða enn á fullu að afla mér þekkingar þegar ég hætti að kenna 67 ára gömul. Annars held ég að maður staðni bara og verði leiður á kennslunni.“

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is