Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Lágnætti. Fjórði Óðinsdagur í Einmánuði
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
08. apríl. 2016 12:07

Mannvirkjum, fólki og fénaði bjargað í mesta sinubruna sögunnar

Tíu ár eru nú liðin frá því slökkt var í síðustu glæðum eldanna sem loguðu samfleytt í þrjá sólarhringa í Hraunhreppi á Mýrum vorið 2006. Blaðamaður Skessuhorns var á staðnum alla dagana og skráði í máli og myndum það sem fyrir augu bar. Til að rifja hér upp þessa ógnvekjandi daga í sögu bænda og búaliðs á Mýrum birtum við hér orðrétta frásögn í máli og myndum úr Skessuhorni frá því fyrir réttum tíu árum. (Texti og myndir; mm)

 

Bruninn mikli á Mýrum:

 

Einu umfangsmesta slökkvistarfi sem um getur í sinubrunum hér á landi lauk seint á laugardagskvöldið þegar endanlega tókst að slökkva síðustu eldana sem logað höfðu frá því á fimmtudagsmorgun í Hraunhreppi á Mýrum. Á fimmtudag og fram á laugardagskvöld loguðu eldarnir alla jafnan á stórum svæðum oft á mörgum stöðum samtímis og gerði það slökkvistarf enn erfiðara. Neikvæðar hliðar fækkandi búpenings í sveitum landsins endurspegluðust e.t.v. betur en áður í þessum miklu eldum því fullyrða má að sinueldar sem þessir hefðu aldrei orðið að þessu gríðarmikla báli ef beitarálag væri meira en það er í dag á þessum slóðum. Ástæða er til að hafa áhyggjur af að sinueldar verði í framtíðinni stærri og erfiðari viðfangs af þessum sökum.

 

 

 

Ræst út í tvígang

Seint aðfararnótt laugardags töldu menn að tekist hefði að slökkva alla elda, en fyrirvaralaust blossuðu þeir upp að nýju um kaffileytið sama dag og þá á nokkrum stöðum. Þá var á ný kallað út allt tiltækt lið og tókst að slökkva síðustu eldana um klukkan 23 um kvöldið. Eftir það var stöðug vakt á svæðinu og slökkt í öllum smáglæðum sem gerðu vart við sig. Síðustu eftirlitsferðina fóru menn svo snemma á mánudagsmorgun, en þá sást hvergi glóð og var starfi manna á svæðinu því formlega lokið. Síðar á mánudag fór að rigna og gátu menn þá fyrst andað léttar.

 

Vel á annað hundrað manns kom með einum eða öðrum hætti að slökkvistarfinu í Hraunhreppi sem samtals stóð þannig í fjóra sólarhringa og víst að þar var mikið þrekvirki unnið við að bjarga mannvirkjum og koma í veg fyrir tjón á fólki og búfénaði. Samkvæmt mælingum Náttúrufræðistofnunar Íslands brunnu um 70 hektarar lands í eldunum og ljóst að bruninn mun fela í sér breytinagr á gróðurfari á svæðinu næstu árin.

 

Blaðamaður Skessuhorns var á ferðinni á Mýrum alla dagana sem eldar loguðu og getur vitnað að menn lögðu sig í líma við slökkvi- og björgunarstörf. Þrotlaus vinna og fórnfýsi varð til þess að eldarnir urðu ekki víðfeðmari en raun ber vitni; nóg samt. Talið er fullvíst að eldurinn, sem átti upptök sín við Snæfellsnesveg, hafi kviknað út frá glóð á sígarettu sem hent var út úr bíl. Ástæða er til að benda reykingamönnum sérstaklega á að öskubakkar eru til þess ætlaðir að drepa í stubbunum og eru í öllum bílum!

 

Margs konar slökkvitæki

Mikill fjöldi slökkviliðsmanna úr a.m.k. fimm slökkviliðum; Borgarnesi, Borgarfirði, Búðardal, Akranesi og Reykjavík börðust við eldana ásamt bændum af Vesturlandi, nágrenninu, Borgarfirði og Dölum sem komu með dráttarvélar og stórvirkar haugsugur. Þá var fjöldi björgunarsveitamanna að störfum og sjálfboðaliðar sem allir unnu frábært verk. Björgunarstarfi var þannig stýrt að áhersla var annarsvegar lögð á að verja mannvirki á jörðunum þegar eldarnir nálguðust og hinsvegar var mikil áhersla lögð á að bleyta í vegum og vegköntum til að freista þess að hindra að eldarnir næðu yfir þá.

Margs konar slökkvitæki; hefðbundin sem óhefðbundin voru nýtt við slökkvistarfið allt frá svokölluðum klöppum sem barið er á glóð og eld til stórvirkra vatnsflutningstækja. Stórar haugsugur dregnar af öflugum dráttarvélum voru í raun einu tækin sem hægt var að aka með um mýrar og holt enda tækin á stórum og flotmiklum dekkjum. Tankar þeirra höfðu flutningsgetu upp í 15 tonn af vatni. Þá voru dælu- og tankbílar slökkviliðanna nýttir til hins ítrasta, aðrir vatnsflutningabílar, jarðýtu var beitt við að flekkja land og drepa í eldjöðrum og jafnvel þyrla var kölluð til í tvígang en hún dreifði vatni úr um 2 þúsund lítra vatnspoka yfir eldana þar sem önnur tæki komust ekki að af landi. Björgunarsveitarmenn, lögregla, nágrannar og ýmsir fleiri hjálpsamir aðilar lögðu auk þess hönd á plóg við ýmis verk sem fylgja svo umfangsmiklu og mannfreku slökkvistarfi sem þessu.

 

Mannvirki varin og varnarlínur settar upp

Í þessum mestu sinueldum í manna minnum varð ekki tjón á mannvirkjum, mönnum eða búfénaði og verður það að teljast blessunarlega vel sloppið. Slökkvistjórinn í Borgarnesi; Bjarni Þorsteinsson stóð vakt á Mýrunum allt frá fimmtudagsmorgni og fram á mánudag með litlum hléum. Hann var að vonum þreyttur á mánudag þegar Skessuhorn hafði samband við hann: “Við lögðum áherslu á að enginn skaðaðist í þessum hamförum; fólk eða fénaður, vörðum mannvirki og byggðum upp varnarlínur til að hefta enn frekari útbreiðslu eldsins. Ég tel að okkur hafi tekist það vel; það eru allir heilir, mannvirki voru varin og skepnur sluppu. Það ræður enginn mannlegur máttur við svona hamfarir þegar eldurinn flæmist áfram á ógnarhraða og eldsmaturinn er mikill. Því held ég að litið í baksýnisspegilinn eigum við og allir sem að þessu komu á einhvern hátt að vera bæði þakklát og stolt yfir að ekki fór verr,” sagði Bjarni.

 

Lærum af þessu

Aðspurður um þá gagnrýni sem fallið hefur á hann og stjórnun slökkvistarfs sagði Bjarni: “Ég held að við hefðum ekki getað gert margt öðruvísi en við gerðum miðað við allar aðstæður og undir því álagi sem mannskapurinn var í. Að sjálfsögðu á það við að lengi lærir sem lifir og á það við okkur öll. Auðvitað hefði mátt gera eitthvað öðruvísi en gert var, en árangurinn þegar upp er staðið er góður því menn og skepnur og mannvirki sluppu án skaða og okkur tókst að forða því að eldurinn næði enn meiri útbreiðslu, t.d. suður í Álftaneshreppinn. Sú gagnrýni sem sett var fram sl. sunnudag á störf okkar er eðlileg í ljósi aðstæðna og þreyttur maður sem setur hana fram. Ég held að verði að flokka hana sem einhvers konar áfallastreitu. Þessa gagnrýni tek ég ekki alvarlega en að sjálfsögðu munum við reyna að læra af því hvernig til tókst. Af reynslunni læra menn einni saman í tilvikum sem þessum og menn mega ekki gleyma því að þetta voru stærstu sinueldar Íslandssögunnar. Þrátt fyrir að við höfum fengið á okkur gagnrýni fyrir eitthvað sem menn telja að við höfum gert rangt, þá eru miklu fleiri sem hafa haft samband og þakkað okkur einmitt fyrir að hafa gert allt sem hægt var í baráttunni við eldinn,” sagði Bjarni að lokum. Viðbragðsaðilar muni koma saman á næstu dögum og meta brunann í heild sinni, viðbrögð slökkviliðsmanna og annarra björgunaraðila.

 

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is