09. apríl. 2016 11:41
Skallagrímur tryggði sér í gærkvöldi í fyrsta skipti í sögunni sæti í Dominos deild kvenna með sigri á KR í Reykjavík. Sigra þurfti tvo leiki til að tryggja sæti í deildinni. Gestirnir úr Borgarnesi komu ákveðnari til leiks og náðu fjótt átta stiga forystu. KR var ekki á þeim buxunum að gefa Skallagrími auðveldan leik og héldu muninum í 3-6 stigum út fjórðunginn en staðan að honum loknum var 16-22 Skallagrími í vil. Í öðrum leikhluta tóku Skallagrímskonur völdin sóknarlega og léku við hvern sinn fingur. Staðan þegar haldið var til hálfleiks 29-41 fyrir Skallagrími. Gestirnir hélt áfram að leiða en KR voru alltaf í skugganum á þeim og var munurinn um 10 stig allan þriðja leikhlutann. Þegar fjórði fjórðungur hófst var staðan 41-56 fyrir gestina og þurfti nokkuð til að KR gæti snúið leiknum við. Þær fóru þó allnærri því í síðasta fjórðungi þegar gestirnir áttu dapran leik um tíma. Þegar munurinn var kominn niður í eitt stig tóku gestirnir þó á sig rögg og kláruðu leikinn. Lokastaðan 56-67 fyrir Skallagrím og seturéttur í Dominos deildinni staðreynd.
Hjá Skallagrími var Erikka Banks stigahæst með 17 stig, 23 fráköst og var frábær í leiknum. Einnig var Kristrún Sigurjónsdóttir mikilvæg en auk þess að setja 17 stig vóg reynsla hennar og yfirvegun þungt í lok leiksins þegar nærri lá að KR-ingar næðu að vinna niður forskotið. Það gerðist þó ekki.
Vel var tekið á móti Skallagrímskonum í gærkvöldi við komuna í Borgarnes og mikil fagnaðarlæti. Hópur fólks mætti við Olís og flugeldum var skotið á loft.