12. apríl. 2016 09:01
Félagar í Búnaðarfélagi Mýramanna stóðu að árlegri Mýraeldahátíð síðastliðinn laugardag og buðu hverjum sem vildu að heimsækja þá og eiga góðan dag. Stærsti hluti hátíðarinnar fór fram í Reiðhöllinni Faxaborg í Borgarnesi en kvöldvaka var síðan eftir mjaltir í félagsheimilinu Lyngbrekku. Hátíð þessi hefur stöðugt vaxið fiskur um hrygg og nú á tíu ára afmælinu sáu bændur fram á að til bóta væri að færa sýningarsvæðið í stærra hús. Sú tilraun heppnaðist prýðilega. Gríðarlegur fjöldi sótti hátíðina og er áætlað að vel á annað þúsund manns hafi mætt í Faxaborg og um tvö hundruð voru svo í Lyngbrekku um kvöldið. Sigurjón Helgason bóndi á Mel og formaður búnaðarfélagsins var afar sáttur eftir helgina þegar rætt var við hann. „Það eru allir ánægðir, bæði gestir og við sem að félaginu stöndum. Hingað kom fjöldi fyrirtæki til að kynna vöru og þjónustu, veðurguðirnir spiluðu út sínum bestu trompum og gestir voru með bros á vör. Ég vil nota þetta tækifæri og koma á framfæri kærum þökkum til allra sem lögðu hönd á plóg að gera þessa hátíð að veruleika. Hvort sem það voru sjálfboðaliðar, félagasamtök eða aðrir. Við í búnaðarfélaginu erum glöð og ánægð og þökkum kærlega fyrir okkur,“ sagði Sigurjón.
Sjá nánar í Skessuhorni sem kemur úr prentun í fyrramálið.