12. apríl. 2016 11:08
Lionsmenn á Akranesi færðu lyflækningadeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi gjafir síðastliðinn þriðjudag. Færðu þeir deildinni hjartalínuritstæki af nýjustu tegund, búið þeim eiginleikum að geta flutt upplýsingar beint yfir í rafræna sjúkraskrá sjúklings. Upplýsingar eru því aðgengilegar til úrlestrar fyrir sérfræðing hvort heldur hann er staðsettur innan sjúkrahússins eða á Landspítalanum. Auk hjartalínuritstækisins gaf Lionsklúbburinn svokallaðan Holter hjartasírita. Tækið er notað við rannsóknir á takttruflunum í hjarta og tekur upp hjartalínurit í heilan sólarhring eða lengur eftir ástæðum. Verðmæti gjafanna er um 1,5 milljón króna. Frá þessu er greint á vef stofnunarinnar; www.hve.is