13. apríl. 2016 12:09
Síðari hluta janúar á þessu ári náðist ófleygur örn á norðanverðu Snæfellsnesi. Um unga össu var að ræða úr varpi síðasta sumars og hafði hún laskast á væng og miss við það flughæfnina. Assan var handsömuð og komið til aðhlynningar í Húsdýragarðinum í Reykjavík þar sem hún hefur nú dvalið í hálfan þriðja mánuð. Assan fékk svo frelsið á ný í gær. Farið var með hana á sama stað og hún var fönguð í Berserkjahrauni. Eitthvað hafði flughæfni hennar minnkað við dvölina í búri og í fyrsta flugtaki hlunkaðist hún fljótlega í sjóinn og lá þar eins og slytti án þess að reyna að synda. Bar þá að tvær álftir og tóku össuna í sundkennslu. Við það var eins og lifnaði yfir henni og gat hún synt í land og komið sér á þurrt. Þrír ernir úr nágrenninu voru þá komnir á staðinn og sveimuðu yfir í dágóða stund meðan fólk var á staðnum.
Að sögn Róberts Arnars Stefánssonar hjá Náttúrustofu Vesturlands hyggst hann fylgjast úr hæfilegri fjarlægð með hvernig össunni reiðir af. Jafnvel verður henni fært æti ef þarf. „Við vonum náttúrlega að foreldrarnir finni hana og taki við hlutverkinu að fylgjast með henni. Við töldum að hún myndi halda áfram að rýrna ef hún kæmist ekki út í náttúruna á nýjan leik og því var henni sleppt núna. Nú þarf hún að æfa flugtökin og styrkjast við náttúrulegar aðstæður. Þegar við slepptum henni var logn og vel má vera að hún hafi af þeim ástæðum ekki náð að halda sér á flugi. Hún er greinilega mjög aum ennþá en við vonum að hún nái að styrkjast á heimaslóðum,“ sagði Róbert Arnar.