13. apríl. 2016 03:40
Fiskþurrkunarfyrirtækið Klumba í Ólafsvík hefur sagt upp öllu starfsfólki og taka uppsagnir gildi 1. júlí næstkomandi hafi ekki rofað til í markaðsmálum með þurrkaðan fisk. Að sögn Steingríms Leifssonar framkvæmdastjóra Frostsfisks, sem rekur Klumbu, er ástæðan erfiðleikar í sölu til Nígeríu og stjórnmálaástandið þar. „Þetta er varúðarráðstöfun hjá okkur en markaðir í Nígeríu hafa verið meira og minna lokaðir í nánast heilt ár frá því stjórnarkreppan þar hófst. Kaupendur ytra geta ekki nálgast dollara til að fjármagna innflutning á þurrkuðum fiski og hjá okkur hafa því hlaðist upp birgðir,“ segir Steingrímur. 34 starfsmenn eru hjá Klumbu.
Nánar er fjallað um málið í Skessuhorni sem kom út í dag.