14. apríl. 2016 08:01
Fyrirmyndardagurinn var haldinn á vegum Vinnumálastofnunar í þriðja skipti 8. apríl síðastliðinn. Markmið dagsins er að bjóða atvinnuleitendum með skerta starfsgetu tækifæri til að vera gestastarfsmenn í fyrirtækjum og stofnunum í einn dag eða hluta úr degi og kynnast þannig hinum ýmsu störfum. Um leið fá forsvarsmenn fyrirtækja tækifæri til að kynnast einstaklingum með skerta starfsgetu. Í Stykkishólmi tóku þrjú fyrirtæki þátt í Fyrirmyndardeginum í samstarfi við Ásbyrgi, dagþjónustu fyrir fullorðna fatlaða einstaklinga. St.Franciskusspítalinn tók á móti þremur gestastarfsmönnum og kynnti þá fyrir starfsemi spítalans. Starfsmennirnir létu til sín taka í eldhúsinu, hjálpuðu meðal annars til við að undirbúa hádegismatinn og baka brauð. Sæferðir fengu til sín tvo gestastarfsmenn sem tóku til hendinni við bryggjustörf, losuðu ruslatunnur og tóku á móti Særúnu þegar hún kom í land svo fátt eitt sé nefnt. Heimagistingin Hólmur-inn tók einnig þátt í Fyrirmyndardeginum og fékk til sín einn gestastarfsmann sem fékk kynningu á starfseminni og skemmtilega innsýn í ferðamannabransann.
Nánar í Skessuhorni vikunnar.