17. apríl. 2016 01:20
Veður fer versnandi, fyrst á Vestfjörðum og síðan á Norðurlandi þegar líður á daginn. Spáð er hríðarveðri og 15-20 m/s. Í Reykhólasveit, Dölum og á Holtavörðuheiði verður blint, sérstaklega eftir miðjan daginn. Veðrið verður þó verst um norðan og austanvert landið og sannkallað vetrarveður þegar einungis fimm dagar eru til formlegrar sumarbyrjunar. Austanlands hvessir og snjóar einkum eftir hádegi í dag og horfur eru á stórhríðarveðri síðdegis og í kvöld um landið norðaustanvert. Upp úr kl. 17 til 18 hvessir suðuaustanlands og verður sviptivindasamt frá Lómagnúpi austur í Berufjörð. Eins má reikna með sandfoki yfir Eldhraun vestan Klausturs, eins á Skeiðarársandi og e.t.v. víðar. Norðvestantil gengur veður smámsaman niður í kvöld, en áfram þó skafrenningur.
Á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi er nú víðast vetrarfærð eins og snjóþekja, krapi, hálka, hálkublettir, snjókoma, skafrenningur og éljagangur. Lokað er á Steingfrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Ófært er á Klettshálsi og Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Vatnsskarði eystra.