18. apríl. 2016 10:51
Úrslitarimman um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik hófst á laugardag þegar Snæfell heimsótti Hauka. Liðin höfnuðu í efstu tveimur sætum deildarinnar og fyrir viðureignina var mál manna að þarna færu tvö bestu lið mótsins.
Leikurinn fór hægt af stað. Bæði lið voru varkár og þreifuðu fyrir sér. Þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður tóku Haukakonur frumkvæðið í leiknum. Snæfellskonur komust lítt áleiðis gegn sterkri vörn heimaliðsins. Þær náðu þó góðum kafla snemma í öðrum leikhluta en eftir það tóku Haukar öll völd á vellinum, skelltu heimaliðið í lás í vörninni og settu í fluggírinn í sókninni. Skilaði það heimaliðinu afgerandi 16 stiga forskoti í hálfleik, 33-17.
Snæfell byrjaði síðari hálfleikinn betur en þær luku þeim fyrri og minnkuðu forskotið smám saman. Um miðjan þriðja leikhluta urðu Haukar fyrir áfalli þegar Helena Sverrisdóttir, þeirra besti leikmaður, meiddist og varð að fara af velli. Áfram héldu Snæfellskonur að saxa á forskotið og þegar lokafjórðungurinn er hálfnaður munar aðeins þremur stigum á liðunum. Haukar tóku þá við sér á ný og juku forskotið í átta stig. Snæfellskonur gerðu heiðarlega tilraun til að stela sigrinum með ótrúlegum kafla á lokasekúndum leiksins en það var um seinan. Þær urðu að sætta sig við eins stigs tap, 65-64.
Haiden Palmer var atkvæðamest Snæfellskvenna með 20 stig, 18 fráköst og sex stoðsendingar. Næst henni kom Gunnhildur Gunnarsdóttir með 14 stig og sex fráköst.
Haukar leiða úrslitaviðureignina með einum sigri gegn engum. Liðin mætast aftur í kvöld, mánudaginn 18. apríl, í Stykkishólmi og þar geta Snæfellskonur jafnað metin í viðureigninni. Leikurinn hefst kl. 19:15.