18. apríl. 2016 04:27
Ólafur Ragnar Grímsson mun sækjast eftir endurkjöri til embættis forseta Íslands. Þetta tilkynnti hann á blaðamannafundi sem stendur yfir á Bessastöðum. Forsetakosningar verða haldnar í júní. Í ljósi þess að forsetinn gaf það út á nýjársdag að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér í kosningunum í júní, og láta fimm kjörtímabil duga, hefur um tugur frambjóðenda tilkynnt framboð til forseta. Litlar líkur eru á að þeir hafi erindi sem erfiði því aldrei í lýðveldissögunni hefur sitjandi forseti verið felldur af stalli. Í ljósi þessa má búast við að framboð forsetans kalli fram blendnar tilfinningar margra, kannski ekki síst þeirra sem unnið hafa að framboði eða hvatt valda einstaklinga til þess á undanförnum mánuðum. Hins vegar er stór hópur fólks sem fagnar þessari ákvörðun Ólafs Ragnars, ekki síst í ljósi ástandsins í stjórnmálum.