22. apríl. 2016 01:37
Tvö félög Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi hafa ályktað þess efnis að fram fari forval á lista flokksins um allt land fyrir alþingiskosningarnar í haust. Stjórn VG í Borgarbyggð fundaði í gær og áréttaði mikilvægi þess að haldið verði leiðbeinandi forval. „Það er í anda þeirrar lýðræðislegu stefnu sem hreyfingin stendur fyrir en við teljum uppstillingu ekki jafn heppilega í því tilliti,“ segja VG félagar í Borgarbyggð. VG félagið í Skagafirði hefur ályktað í sömu veru og Borgfirðingarnir og fara fram á forval. Samkvæmt heimildum Skessuhorns er skoðanamunur um hvort fara eigi í uppstillingu eða forval á landinu. Í Norðvesturkjördæmi ætti það að skýrast 14. maí næstkomandi þegar aðalfundur kjördæmisráðs er áætlaður.