Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Lágnætti. Fjórði Óðinsdagur í Einmánuði
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
25. apríl. 2016 09:01

Ferðasaga hóps nemenda í FVA til Slóvakíu

Dagana 1. – 10. apríl síðastliðinn fóru 20 nemendur frá Fjölbrautaskóla Vesturlands í námsferð til Slóvakíu. Um var að ræða samstarfsverkefni milli Fjölbrautaskóla Vesturlands og Gymnázium J.B.Magina í Vrbové í Slóvakíu sem strykt var af EES og stjórnvöldum í Slóvakíu. Verkefnið gekk út á að efla umhverfisvitund nemenda, samstarf og tengsl, sem það vissulega gerði.

 

 

Í nóvember á síðasta ári komu 20 nemendur til Íslands frá skólanum í Vrbóve. Hver Íslendingur fékk slóvakískan félaga, þeir gistu svo heima hjá hvor öðrum. Á Íslandi var m.a. kíkt í heimsókn í Ljósafossvirkjun og Deildartunguhver, unnið að ýmsum verkefnum varðandi endurnýtanlega orku og erlendu nemendunum leyft að kynnast náttúru og menningu Íslands.

 

Ferðalagið til og um Slóvakíu var mjög áhugavert. Flogið var til Berlínar og þaðan til Vínarborgar. Þaðan var farið með rútu til bæjarins Vrbové. Ferðin tók um hálfan sólarhring. Eftir það voru ferðalangarnir vægast sagt þreyttir. Tekið var mjög vel á móti okkur með kaffi og kökum í matsal skólans, áður en farið var á safn um Móric Count de Benyovszky, mann frá Vrbové sem ferðaðist víðsvegar um heiminn og lenti í alls konar ævintýrum. Eftir það fóru íslensku nemendurnir heim til sinna félaga.

 

Daginn eftir lagði hópurinn af stað til bæjarins Terchová, sem er upp í fjöllum. Á leiðinni þangað var stoppað í tveimur kastölum í Beckov og Trenčín. Annan kastalann var enn verið að endurgera eftir bruna sem lagði hann í rúst. Enn er hægt að sjá leifar af veggmynd í einum glugganum, sem var í kirkju innan kastalans. Seinni kastalinn var í talsvert betra ásigkomulagi. Inni í honum voru húsgögn sem safnað hafði verið saman frá hinum ýmsu stöðum, því upprunalegu húsgögnin brunnu, eins og í mörgum kastölum. Í Slóvakíu er fjöldinn allur af kastölum og í þeim upplifðu litlu Íslendingarnir sig sem konungborna.

Nokkrir dagar voru nýttir í verkefnavinnu þar sem nemendur unnu saman. Nemendunum var skipt í hópa. Hver hópur fékk eitt þema sem hann átti að rannsaka, vinna með og flytja fyrirlestur um fyrir hina. Viðfangsefnin voru til dæmis samanburður dreif- og þéttbýlis, umhverfisáhrif ferðaiðnaðarins, sjálfbær þróun og misrétti, atvinnuvegir og sjálfbærni auk fjölgunar mannkynsins. Einnig var farið í gamalt raforkuver sem var í notkun frá 1906 til 1997. Þar fengu nemendurnir að vinna og föndra með rafmagn.

 

Þó að sólin hafi skinið í Terchová þá fengu fölu Íslendingarnir ekki bara að liggja og flatmaga á hótelinu. Farið var með kláf upp í yfir 1500 m hæð og gengið um skíðasvæði. Einnig var farið á safn um Juraj Jánošík sem er einskonar Hrói Höttur þeirra Slóvaka.

 

Stór hluti af hópnum fór í fjallgöngu um Jánošíkove gilin. Lagt var af stað frá Terchová í sól og miklum hita. Gengið var meðfram læk og háum trjám. Á ákveðnum tímapunkti skiptist hópurinn í tvennt. Hluti snéri við og gekk aftur sömu leið til baka, meðan hinn hélt áfram upp gilið, þar sem við tók klifur. Komið var niður í bænum Štefanóva og tók gangan um 3 tíma.

 

Deginum fyrir brottför var eitt í höfuðborginni Bratislava. Sumir ákváðu að rölta um gamla bæinn, aðrir gerðu það sem Íslendingar gera best, versla all hressilega erlendis. Um kvöldið var síðasta kvöldmáltíðin snædd á fljótabáti sem lá við landfestar á Dóná.

 

Maturinn í Slóvakíu var öðruvísi en hér og hagstæðara er að versla þar en heima. Slóvakar drekkja ekki matnum sínum í sósu eins og við Íslendingar eigum til að gera. Hádegisverðurinn var aðalmáltíð Slóvaka en ekki kvöldverðurinn eins og hjá okkur. Í flestum tilfellum var forréttar neytt í hádeginu. Mikil gjafamenning ríkir í Slóvakíu. Í bæði skiptin sem hópurinn hittist leystu Slóvakarnir Íslendingana út með gjöfum. Nær allt sjónvarpsefni Slóvaka er þýtt yfir á móðurmálið, sem hefur áhrif á enskukunnáttu þeirra, en á sama tíma styrkir það móðurmálið.

 

Allt í allt var þetta mjög skemmtileg og fræðandi ferð. Við lærðum ekki bara um sjálfbærni og þær hættur sem að jörðinni stafa, heldur einnig það að þó að menningin, tungumálin, landamæri og fjarlægð skilji okkur að þá lifum við öll saman á þessari jörð og höfum sömu grundvallar hagsmuna að gæta.

 

-Anna Chukwunonso Eze, Ástrós Saga Bjarkadóttir, Selma Dís Hauksdóttir og Vigdís Erla Sigmundsdóttir.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is