25. apríl. 2016 02:26
Eins og kunnugt er ákvað Íslandspóstur að skerða þjónustu sína á landsbyggðinni frá og með 1. apríl síðastliðnum. Breytingin felst í því að póstferðir í dreifbýlið eru nú einungis tvær aðra hverja viku (þriðjudaga og fimmtudaga), en þrjár hina vikuna (mánudaga, miðvikudaga og föstudaga). Mörgum íbúum í dreifbýli fellur þessi breyting illa og telja að stjórnendur Íslandspósts ættu að endurskoða ákvörðun sína og reyna að minnsta kosti að hafa póstþjónustuna ekki verri en hún hefur verið á liðnum árum. En þessi slaka þjónustu Íslandspósts keyrði um þverbak í síðustu viku þar sem póstferð á fimmtudegi féll niður þar sem um frídag var að ræða, sumardaginn fyrsta. Sambærileg staða kemur svo upp í næstu viku þegar fimmtudagurinn 5. maí er lögbundinn frídagur. Áskrifandi að Morgunblaðinu sem hafði samband við ritsjórn Skessuhorns í morgun upplýsti að í dag ætti hann von á sex daga skammti af Mogganum; „ef Guð og Íslandspóstur lofar,“ eins og hann orðaði það.
Íslandspóstur er opinbert hlutafélag sem þýðir að það eru stjórnmálaflokkarnir sem skipa stjórn þess og bera ábyrgð á öllum stefnumarkandi ákvörðunum sem þar eru teknar. Forstjóri Íslandspósts er Ingimundur Sigurpálsson. Samkvæmt heimasíðu Íslandspóst skipa eftirtaldir einstaklingar stjórnina:
Eiríkur Haukur Hauksson er formaður stjórnar, fæddur árið 1973. Hann er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.
Jón Ingi Cæsarsson er fæddur árið 1952. Hann hefur landspróf og próf frá Póst- og símaskólanum og er starfsmaður Íslandspósts. Hann hefur setið í stjórn frá 2009.
Ólöf Kristín Sveinsdóttir er fædd árið 1965. Hún er bókari að mennt. Ólöf hefur setið í stjórn félagsins frá því í mars 2014.
Preben Jón Pétursson er fæddur árið 1966. Hann er tæknifræðingur að mennt. Preben hefur setið í stjórn félagsins frá því í mars 2014.
Svanhildur Hólm Valsdóttir er fædd árið 1974. Hún er lögfræðingur að mennt. Svanhildur hefur setið í stjórn félagsins frá því í mars 2014. Svanhildur Hólm er aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.