26. apríl. 2016 09:50
Í kvöld mættust Skallagrímur og Fjölnir í oddaleik um laust sæti í Domino‘s deild karla í körfuknattleik á næsta tímabili. Leikið var í Dalhúsum í Grafarvogi. Eftir æsispennandi úrslitarimmu var allt undir í kvöld og voru það Skallagrímsmenn sem höfðu betur og sigruðu, 75-91. Það er því ljóst að Borgnesingar munu að nýju leika í deild þeirra bestu á næsta keppnistímabili.
Bæði lið mættu ákveðin til leiks og skiptust á að leiða framan af fyrsta leikhluta. Það var því við hæfi að við lok hans væri staðan jöfn, 19-19. Áfram var jafnræði með liðunum, leikurinn í járnum og mjög spennandi til loka fyrrihálfleiks, en þá leiddu heimamenn í Fjölni með aðeins einu stigi, 41-40.
Skallagrímsmenn skoruðu fyrstu stigin eftir hlé en Fjölnir náði forskotinu á nýjan leik skömmu síðar. Borgnesingar jöfnuðu en Fjölnir náði aftur eins stigs forystu fyrir lokafjórðunginn og andrúmsloftið orðið rafmagnað í Dalhúsum. Fjölnir hélt forystunni þar til Borgnesingar komust einu stigi yfir þegar aðeins fjórar mínútur lifðu leiks. Upphófst þá frábær lokakafli Skallagrímsmanna sem gersamlega stungu heimaliðið af og tryggðu sér á ótrúlegan hátt 16 stiga sigur, 91-76 og þar með sæti í Domino‘s deildinni á næsta ári.
J.R. Cadot setti upp tröllatvennu í oddaleiknum. Hann skoraði 22 stig og tók 22 fráköst. Kristófer Gíslason var hins vegar stigahæstur Skallagrímsmanna með 24 stig, en hann tók auk þess 6 fráköst. Sigtryggur Arnar Björnsson var með 14 stig og reynsluboltinn Hafþór Ingi Gunnarsson með 11 stig og 6 fráköst.
Skessuhorn óskar Skallagrímsmönnum innilega til hamingju með árangurinn!