27. apríl. 2016 02:01
Smáforritið KeyWe er hannað fyrir spjaldtölvur og önnur snjalltæki og ætlað til kennslu í grunnskólum. Aðstandendur forritsins telja að það geti í framtíðinni orðið grundvallarnámstæki í hugvísindum. „KeyWe er stafræn glósubók sem býr sjálfkrafa til leiki úr því efni sem notandinn setur inn í það,“ segir Ólafur Stefánsson hugmyndasmiður, fyrrum handboltakappi og einn eigenda KeyWe. Gildir þá einu hvort forritið er matað á texta, myndum eða vefslóðum, svo dæmi séu tekin. „Allt efnið, eins konar stafræn hugkort og „taggarnir,“ sem hafa sömu virkni og „hashtögg“ á Instagram eða Pintrest, verður síðan að einstaklingsbundnu efni í tölvuleikina sem við erum enn að vinna að,“ bætir hann við.
Ólafur segir að forritið hafi verið kynnt fyrir breiðum aldri grunnskólanema. „Við höfum verið að vinna með börnum allt frá átta ára og upp í 15 ára. Allir aldurshópar taka þessu vel því leikirnir verða til út frá því efni sem hver og einn setur inn í forritið. Þar af leiðandi verða leikirnir alltaf einstaklingsmiðaðir,“ segir hann og bætir því við að vel hafi gengið að innleiða forritið í skóla. „Við náðum okkar markmiði, sem var að koma fyrstu útgáfu forritsins til þúsund nemenda í sjö skólum. Við vildum ekki fara hraðar af stað því forritið leyfði ekki meiri umgang. En nú erum við komin með næstu gerð sem er enn betri og erum að prófa hana með nemendum og kennurum í sömu skólum. Í haust verður þriðja útgáfa tilbúin, sem mun meðal annars innihalda fyrstu leikina. Þá getum við farið að nálgast enn fleiri skóla,“ segir Ólafur. Hann segir bæði nemendur og kennara ánægða með verkefnið. „Krakkarnir hafa gaman af þessu og kennararnir eru mjög ánægðir. Fyrsta útgáfan var fyrst og fremst hugsuð til að fá skólaverkefni gerð inn í forritið, hún var ekki nógu þroskuð til að krakkarnir léku sér í henni eftir að þeir komu heim úr skólanum. En það mun gerast með þriðju útgáfunni sem kemur í haust,“ segir Ólafur ánægður.
Sjá nánar í Skessuhorni sem kom út í dag.