Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
29. apríl. 2016 10:20

Ráðherra boðar byggingu þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi

Á Umhverfisþingi sem nú stendur yfir lýsti Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra því yfir að ákveðið hafi verið að hefja byggingu Þjóðgarðsmiðstöðvar á Snæfellsnesi. Fimmtíu milljónir verða lagðar í verkið fyrst í stað en áætlað er að miðstöðin kosti fullbúin um 300 milljónir króna. Bygging miðstöðvarinnar á sér langan aðdraganda. Árið 2006 ákvað Snæfellsbær og Umhverfisstofnun að efna til samkeppni um hönnun þjónustumiðstöðvar Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls á Hellissandi og fór samkeppnin fram samkvæmt reglum Arkitektafélags Íslands. Miðstöðin skyldi rísa á lóð við Útnesveg þar sem bærinn Hjarðarholt stóð á árum áður, ekki fjarri Sjómannagarðinum á Hellissandi. Um þremur árum síðar kom fram í fréttum Skessuhorns að Teiknistofan Arkís ehf hefði orðið hlutskörpust í samkeppni um hönnun hússins og voru þá kynntar hugsmyndir um byggingu Jökulhöfða á Hellissandi. Við gjaldþrot íslensku bankanna og þrengingar í ríkisfjármálum fór málið hins vegar í bið, en nú hefur ráðherra ákveðið að hafist verði handa. Notaðar verða teikningar sem legið hafa fyrir. Kristinn Jónasson bæjarstjóri í Snæfellsbæ fagnar mjög þessari ákvörðun Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfisráðherra. „Þetta eru gríðarlega jákvæð tíðindi fyrir samfélagið hérna og fyrir Snæfellsnes allt. Því fagna ég mjög að ráðherra hafi stigið þetta skref,“ segir Kristinn í samtali við Skessuhorn.

 

 

Ekki aðeins bygging

Húsið Jökulhöfði kemur til með að þjóna hlutverki þjóðgarðsmiðstöðvar, sem móttökustaður fyrir ferðamenn og verður jafnframt starfsmannaaðstaða þjóðgarðsins. „Jökulhöfðinn verður ekki aðeins bygging. Hann verður gönguleið, útsýnisstaður og iðandi miðpunktur menningar- og útilífs. Hvað form, lögun og nýtingu varðar þá sækir hann innblástur í dýraríkið, mannlífið og landslagið og er ætlað að styrkja þau hughrif sem gestir upplifa við dvöl sína á staðnum,“ sagði í frétt Skessuhorns um niðurstöðu samkeppninnar árið 2009.

 

Byggingin verður um 765 fermetrar að flatarmáli, byggð úr tré og stálgrind og að forminu til skiptist hún í þrennt. Í fyrsta lagi er það Fiskbeinið sem verður klætt lerki og hýsir meðal annars skrifstofur starfsfólks. Í öðru lagi er það Þjóðvegurinn sem er gönguleið upp á bygginguna að útsýnishöfða með sjónskífu þaðan sem sýn verður óskert til jökuls, lands og hafs. Einnig liggur Þjóðvegurinn sem gönguleið í gegnum bygginguna sjálfa. Þriðji hlutinn er Jökulhöfðinn sem er klæddur Corten stáli sem er þeim eiginleika gætt að það ryðgar aðeins lítillega og skapar þau áhrif að samhljómur myndast með árstíðunum og litaafbrigðum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is