03. mars. 2005 08:08
Fulltrúar fjölmargra fyrirtækja og stofnana í Borgarfirði sóttu fund um atvinnulífið í héraðinu sem haldinn var á Hótel Borgarnesi á mánudagskvöld. Fundurinn var haldinn á vegum Borgarbyggðar og Verkalýðsfélags Borgarness. Á honum voru kynnt áform um útgáfu kynningarrits fyrir atvinnulífið, atvinnuvegasýningu í Borgarfirði og hugsanlega stofnun Samtaka atvinnulífsins á svæðinu. Þá var ennfremur kynnt framvinda í stofnun fyrirtækjaklasa í Borgarfirði sem sagt hefur verið frá í Skessuhorni.
Töluverðar umræður urðu á fundinum og var ekki annað að heyra en að aukinnar bjartsýni gætti hjá stjórnendum fyrirtækja í Borgarfirði enda hefur verið umtalsverður vöxtur í atvinnulífinu á svæðinu og miklar framkvæmdir í gangi eins og fram hefur komið á síðum blaðsins. Niðurstaða fundarins var m.a. sú að stefnt verður að atvinnuvegasýningu í Borgarnesi og nágrenni á vordögum en sýningin verður að hluta til í fyrirtækjunum sjálfum en einnig verður sameiginlegt sýningarsvæði á einum stað.