04. mars. 2005 07:44
Eignarhaldfélagið Fasteign ehf. hefur gert Borgarbyggð tilboð um kaup á húseigninni að Borgarbraut 14, þar sem Sparisjóður Mýrasýslu er til húsa í dag. Borgarbyggð hefur keypt húsið af SPM með það í huga að flytja þangað skrifstofur sveitarfélagins en Sparisjóðurinn flytur sem kunnugt er í nýtt húsnæði við Digranesgötu síðar á þessu ári. Áform Fasteignar eru að kaupa Borgarbraut 14 og leigja húsið síðan aftur til sveitarfélagsins en slíkt rekstrarform færist mjög í vöxt.
“Við höfum átt í viðræðum við fyrirtækið og það liggur fyrir tilboð en ekkert hefur verið ákveðið,” segir Páll S Brynjarsson bæjarstjóri Borgarbyggðar. “Við ætlum að skoða þetta með opnum huga en skoðanir eru vissulega skiptar. Samkvæmt okkar tölum er ekki hentugt að selja hús sem er nokkurnveginn tilbúið til notkunar og endurleigja síðan. Þetta virðist fyrst og fremst vera hentugt þegar um er að ræða nýbyggingu eða hús sem þarfnast mikilla breytinga því fyrirtæki eins og Fasteign ná oft hagkvæmum samningum við verktaka,” segir Páll.