02. mars. 2005 04:55
Um síðustu helgi var haldið námskeið fyrir slökkviliðsmenn af Vesturlandi, en um var að ræða fyrsta námskeiðið af fimm sem hlutastarfandi slökkviliðsmenn þurfa að sækja til að geta talist fullgildir og öðlast þannig réttindi. Til að öðlast þau þurfa þeir að hafa sótt alls 150 tíma námskeið og fá þeir sömu kennslugögn og atvinnu slökkviliðsmenn fá, en atvinnumenn sækja 300 tíma námskeið þar sem ítarlegar er farið yfir öll atriði. Það er Brunamálaskóli ríkisins sem annast námskeiðshaldið og komu þrír kennarar frá Slökkviliði Reykjavíkur.
“Á námskeiðinu nú um helgina var farið lauslega yfir allt sviðið; kaldreykköfun, dælingu og fleira. Meðal annars voru menn látnir fara upp á síló Sementsverksmiðjunnar í fullum skrúða með kúta og grímur en það reynir verulega á þrekið. Námskeiðið var bóklegt að hluta og verklegt eftir hádegi báða dagana,” sagði Guðlaugur Þórðarson, slökkviliðsstjóri á Akranesi í samtali við Skessuhorn. Auk 7 slökkviliðsmanna frá Akranesi tóku þátt í námskeiðiðinu 2 slökkviliðsmenn frá Slökkviliði Borgarness og nágrennis, 2 frá Slökkviliði Borgarfjarðardala og tveir frá Hveragerði.
Guðlaugur segir að hjá Slökkviliði Akraness starfi alls 28 slökkviliðsmenn og eru 18 þeirra fullmenntaðir. Hinir hafa allir hafið slökkviliðsmannanám en eru mislangt á veg komnir með það. Hann gerir ráð fyrir að námskeið númer 2 verði haldið í vor á Akranesi en alls þurfa þeir að sækja 5 þrjátíu tíma námskeið til að fá full réttindi. Þess má geta að Slökkvilið Akraness fagnar 70 ára afmæli á þessu ári og verður haldið upp á tímamótin í vor.