22. mars. 2005 09:07
Hinn þekkti söngleikur “Fiðlarinn á þakinu” var frumsýndur hjá Leikfélaginu Grímni í Stykkishólmi 17. mars s.l. Söngleikurinn fjallar í stuttu máli um mjólkurpóstinn og gyðinginn Tevye, fjölskyldu hans og nágranna í þorpinu Anatevka í Rússlandi. Sagan gerist í kringum aldamótin 1900 á miklum umrótatímum þegar kommúnisminn er að ryðja sér til rúms í Rússlandi og gyðingar eru hraktir frá heimkynnum sínum.
Sagan er í eðli sínu sorgleg en í leikverkinu ræður léttleiki og kátína ríkjum og mikið er sungið og dansað.
Ingunn Jensdóttir er leikstjóri sýningarinnar, en hún hefur mikla reynslu af uppfærslu söngleikja og leikstýrði m.a. Fiðlaranum á þakinu hjá Menntaskólanum á Laugarvatni fyrir 10 árum síðan. Það er mál manna að vel hafi tekist til og var leikurum og aðstandendum fagnað mjög að lokinni sýningu. Það er í rauninni þrekvirki að koma svo viðamikilli sýningu upp hjá áhugafólki í litlum bæ eins og Stykkishólmi og vel flestir gera þetta með fullri vinnu.
Gríðarleg vinna liggur að baki svona uppfærslu og má segja að undirbúningur hafi hafist strax í september s.l. þegar fundað var um verkefni leikársins. Að finna fólk í öll hlutverkin getur verið mikil þrautaganga þegar um svo mannfrekt stykki er að ræða, en um fimmtíu manns koma fram á sviðinu. Það er því mjög ánægjulegt hve vel hefur tekist til að skipa í stöðurnar og að sjá hve leikarar þó óreyndir séu blómstra í hlutverkum sínum. Fjölmargir unglingar koma fram í sýningunni og dansa og syngja af hjartans list en segja má að fólk á öllum aldri taki þátt, allt frá grunnskólanemendum til eftirlaunaþega.
Með hlutverk Tevye mjólkurpósts fer Tryggvi Gunnarsson, Margrét Ásgeirsdóttir er í hlutverki Goldu konu hans og með hlutverk dætranna fimm fara þær Eyrún Arnars Árnadóttir, Anna Margrét Ólafsdóttir, Elín Ragna Þórðardóttir, Jónína Riedel og Sóley Riedel.
Tónlistin skipar stóran sess í Fiðlaranum á þakinu og þeir gamalreyndu kappar Hafsteinn Sigurðsson, Jón Svanur Pétursson, Jósep Blöndal og Lárus Pétursson leysa það verkefni með glæsibrag. Jóhanna Guðmundsdóttir organisti við Stykkishólmskirkju stjórnar kórsöng, en félagar úr kórnum taka þátt í sýningunni.
Að leikmyndinni störfuðu þeir: Jón Svanur Pétursson, Pálmi Ólafsson, Jóhann Hinriksson og Georg Ólafsson. Júlíus Larsen og Þorsteinn Sigurðsson sjá um tæknimál og lýsingu og Stefanía Aradóttir hafði yfirumsjón með hönnun og gerð leikbúninga.
Það verður enginn svikinn af að fara og sjá Fiðlarann á þakinu í Hótel Stykkishólmi, en næstu sýningar eru miðvikudaginn 23. mars kl. 20.00 og á annan í páskum kl. 16.00. Miðapantanir eru í s. 847 1077.