27. mars. 2005 12:17
Sex slösuðust þegar svokallað átthjól valt og fór út af veginum við Gufuskála í nánd við Hellissand um sexleytið sl. laugardagskvöld. Ökumaður hjólsins slasaðist alvarlega á mjöðm og í baki og var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð til. Maðurinn var þó ekki talinn vera í lífshættu. Fimm ungmenni voru á hjólinu og voru meiðsl þeirra minniháttar.
Slysið bar til með þeim hætti að maðurinn ók átthjólinu upp í barð með þeim afleiðingum að það valt og lenti hann undir hjólinu. Læknir sem kom á staðinn taldi rétt að kalla til þyrlu, sem fór af stað upp úr kl. sex. Maðurinn var fluttur á Landspítala - Háskólasjúkrahús. Að sögn lögreglunnar á Ólafsvík hélt hann meðvitund allan tímann og er ekki talið að hann hafi verið í lífshættu.
Farþegarnir á hjólinu voru ungmenni á aldrinum 16-20 ára, að sögn lögreglu og voru þau á slysavarnarnámskeiði hjá Landsbjörgu. Meiðsl þeirra voru ekki alvarleg en þau fóru í skoðun á heilsugæslustöð.
Ökumaðurinn var sjálfur eigandi hins svonefnda átthjóls, sem er nýtt farartæki hér á landi. Hafði hann m.a ætlað sér að sýna liðsmönnum Landsbjargar hjólið þegar slysið átti sér stað. Nokkur slík tæki eru til staðar á landinu að sögn lögreglu og hafði maðurinn öll tilskilin leyfi til að mega nota hjólið á vegum.