Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
31. maí. 2005 03:30

Brautskráð frá LBHÍ í fyrsta skipti

Föstudaginn 27. maí voru nemendur brautskráðir frá Landbúnaðarháskóla Íslands á hátíðlegri og fjölmennri athöfn sem fram fór í Reykholtskirkju. Að þeirri athöfn lokinni var boðið til kaffisamsætis í matsal skólans á Hvanneyri. Þetta er fyrsta brautskráning frá skólanum, sem varð til úr þremur stofnunum um sl. áramót: Garðyrkjuskóla ríkisins, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Rektor LBHÍ er Ágúst Sigurðsson og var þetta jafnframt fyrsta brautskráning hans sem rektors hinnar nýju stofnunar.

 

Alls brautskráðust sextán nemendur á háskólastigi og átján af búfræðibraut, þar af fjórir sem stundað hafa fjarnám við skólann. Tíu nemendur brautskráðust með 90 eininga BS próf og fimm með 120 einingar. Einn nemandi tók MS próf, Þorvaldur Kristjánsson og var hann jafnframt fyrsti mastersnámsnemandinn sem skólinn útskrifar.

Hæstu einkunn þeirra sem tóku 120 eininga próf hlaut Oddný Steina Valsdóttir, en hún var með einkunnina 8,45. Af þeim sem tóku 90 eininga BS próf var Margrét Guðrún Ásbjarnardóttir hæst með 8,85 í einkunn. Hæstu einkunnargjöf fyrir BS ritgerð hlutu að þessu sinni tveir nemendur sem voru nákvæmlega jafnháir með 9,0. Það voru þau Karl Guðjónsson og Þórunn Edda Bjarnadóttir frá Hvanneyri. Hæstu einkunn á búfræðiprófi hlaut Kristrún Snorradóttir með einkunnina 8,58. Þess má geta að Kristrún, sem er frá Augastöðum í Hálsasveit, hefur verið fjarnámsnemandi frá skólanum og í þau tvö og hálfa ár sem nám hennar stóð yfir stundaði hún fulla vinnu samhliða því við svínabúið á Hýrumel. Því var árangur hennar einkar glæsilegur í því tilliti.

Við LBHÍ er nú boðið upp á háskólanám til BS prófs á þremur námsbrautum auk starfsmenntanáms á 7 námsbrautum. Nemendur í LBHÍ voru um síðustu áramót tæplega 300 talsins. Í ræðu Ágústar kom m.a. fram að til þess að skólinn eigi að ná að dafna telja skólastjórnendur að nemendum þurfi að fjölga allnokkuð á næstu árum og verður stefnt að því að svo verði. Starfsmenn skólans eru nú um 130 talsins.

 

Háskóli lífs og lands

 

Ágúst Sigurðsson kom víða við í ræðu sinni við brautskráninguna. Um sérstöðu hins nýja og sameinaða skóla sagði hann m.a.: “Sérstaða Landbúnaðarháskólans er auðvitað í fyrsta lagi viðfangsefnið sem er náttúra Íslands, nýting, viðhald og verndun hennar. Rétt er að benda á að nútíma skilgreining á landbúnaði er mjög víð en þar er almennt átt við hvers konar nýtingu, ræktun, vörslu og verndun búfjár, ferskvatnsdýra og auðlinda landsins til atvinnu- og verðmætasköpunar. Okkar viðfangsefni til kennslu og rannsókna er því landið og það sem á því lifir enda höfum við sagt að við séum “Háskóli lífs og lands”. Önnur sérstaða er auðvitað að hér er um lítinn háskóla að ræða þannig að andrúmsloft kennslunnar og félagslífsins markast af því og verður persónulegri enda mikið um hópavinnu og sameiginlega úrlausn verkefna. Sömuleiðis skapar hið ört vaxandi háskólaþorp á Hvanneyri sérstöðu þar sem flestir nemendur búa á staðnum og kynnast þannig meira og nánar en ella.

Sérstaða háskólans felst einnig í hlutfallslega mjög miklu rannsóknastarfi. Eins og staðan er í dag þá er nálægt því 60% af starfsemi háskólans tengd rannsóknum á einhvern hátt. Þessi staðreynd undirstrikar að hér er um raunverulegan rannsóknaháskóla að ræða og er okkar mikli styrkur þegar kemur að rannsóknatengdu námi þ.e. námi til masters- og doktorsgráða. Þar stöndum við mjög vel að vígi með okkar frábæra vísindafólk og ótal hugmyndir að námsverkefnum.”

Að lokum sagði Ágúst að starfsmenn LBHÍ þurfi að taka virkan þátt í að skilgreina hugtakið landbúnað og með stórauknum þunga að leggjast á árarnar við að greina möguleika, þróun og framtíð íslensks landbúnaðar, landsbyggðar og náttúru almennt í innlendu sem alþjóðlegu samhengi.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is