Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
25. júní. 2005 08:31

Umdeild torfæruhjól og utanvegaakstur

Akstur utan vega er eitt af þessum umræðuefnum í þjóðfélaginu sem verður áberandi við og við. Nú undanfarið hefur akstur á torfæruhjólum, eða mótorkross eins og það er kallað, verið í kastljósinu og vegur þar neikvætt umtal þyngra en hitt. Telja margir víst að sú neikvæða umræða eigi fullan rétt á sér þar sem oft er um töluverð náttúruspjöll að ræða. Það er ljóst að einhverjar umbætur þarf að gera í þessum málum, hvort sem það er með uppbyggingu fleiri viðurkenndra svæða til mótorkrossiðkunar eða strangari viðurlögum við ólöglegum akstri í náttúrunni.  

 

Í síðustu viku var spurning okkar hér á Skessuhorni hvaða viðurlögum lesendur vildu beita við slíkum utanvegaakstri. Vakti spurningin mikla athygli og fjölmargir svöruðu, flestir því til að refsa ætti ökuþórunum með þegnskylduvinnu. Það væri ef til vill við hæfi enda eðlilegt að akstur utan vega verði ekki látinn óátalinn. Ekki eru þó allir torfæruhjólaeigendur ökuníðingar sem spæna upp gras og mosa heldur halda sig innan brauta og fylgja settum reglum.

 

Ánægja  í Ólafsvík

 

Rétt hjá Ólafsvík er ein besta mótorkrossbraut landsins. Hún er í Álfsnesi, um 1700 metra löng og er ein þriggja brauta sem er inni í Íslandsmeistaramótinu. “Brautin er tryggð og með öll tilskilin leyfi,” segir Svanur Tómasson, sem var einn af þeim sem stóð að gerð brautarinnar. “Við teljum okkur vera með þessu að bjóða upp á val í íþróttum svo að unglingar hafi um fleira að velja en bara knattspyrnu til dæmis. Það er líka gaman að segja frá því að nú eru tveir Íslandsmeistarar í sínum flokkum í greininni frá Ólafsvík. Brautin í Álfsnesi þykir mjög góð og hún er alltaf opin en það er sjaldgæft. Það er af því að hún er úr sandi en ekki mold, en þá erum við strax orðin óháðari veðri og vindum. Það er erfiðara með moldarbautir.” Að sögn Svans var gerð brautarinnar í góðu samráði við bæjaryfirvöld og hafi verið staðið vel við bakið á þeim í þessum málum. “Það hefur að mestu leyti verið full sátt um þetta. Það er fullt af fólki sem kemur hér um helgar til að hjóla á daginn og gistir í bænum og um árið var haldið námskeið með sænskum kennara þar sem komu 46 þátttakendur og dvöldu hér í 4 daga. Þannig að þetta er líka lyftistöng fyrir bæinn.”

Einn af forkólfum mótorkrosssportsins í Ólafsvík er Rúnar Már Jóhannsson. Hann segir akstur utan vega ekki vera vandamál hjá þeim. “Þar sem við erum svo fá hérna í þessu er auðvelt að hafa yfirsýn yfir þetta. Ef eitthvað kemur upp veit maður við hvern þarf að tala. Það er miklu erfiðara þarna fyrir sunnan þar sem fjöldinn er gríðarlegur. Við erum svolítið sér á báti hérna.” Að mati Rúnars á að vera ólöglegt að keyra á grónum landssvæðum en öðru máli gegni um vegaslóða. Einnig skipti máli hvernig hjól verið sé að keyra.

 

Verða að fara eftir lögum

 

Þó að vissulega sé mótorkross ört vaxandi akstursíþóttagrein hér á landi og margir hafi ánægju af henni er það greinilegt að akstur utan vega, sem því miður fylgir fleiri hjólaeigendum, er að setja stóran blett á þetta áhugamál sem svo margir hafa ánægju af. Snorri Jóhannesson á Augastöðum í Borgarfirði er yfirlýstur andstæðingur mótorkrossiðkunar og segist hafa oft og mörgum sinnum séð ummerki eftir torfæruhjól nálægt sínum heimaslóðum: “Ég hef séð förin eftir þá í haganum hérna. Svo hafa þeir jafnvel verið að keyra á þessum tækjum t.d. í Vopnalág fyrir framan Surtshelli sem er sögufrægur og friðlýstur staður. Það er synd að það sé ekki bara nóg að hafa þessa fínu braut þarna hjá Ólafsvík.” Að mati Snorra hafa yfirvöld sofnað á verðinum í þessum málum því búið sé að flytja inn fjölda hjóla eftir áramót án þess að nokkuð sé gert til að bæta hjólaaðstöðu fyrir eigendur þeirra. Hann segist þó treysta á lögregluna í þessum málum: “Það er ekki mitt að ákveða refsingar eða annað, heldur stólar maður auðvitað á lögregluna og ég hef enga ástæðu til að efast um velvilja þeirra. Ég ætla ekki að setjast í eitthvað dómarasæti en vil láta yfirvöld sjá um þetta og að farið sé eftir lögunum sem eru í gildi hér á landi.” Snorri vekur einnig athygli á því að í mörgum tilfellum séu hjólin ólögleg áður en þau eru komin út fyrir vegina því oft vanti upp á skráningar ökutækjanna. Samkvæmt upplýsingum hjá Frumherja hf. þarf að skrá, fá númer og tryggja þessi ökutæki rétt eins og fjórhjól og vélsleða.

 

Ökuþórar utan vega umsvifalaust kærðir

 

Snorri segir þolinmæði sína vera á þrotum: “Ég og fleiri hér erum komnir í heilagt stríð við þá sem stunda þetta sport hér í uppsveitum Borgarfjarðar. Við viljum ekki sjá þessi hjól og ég get bara tilkynnt það hér að þeir sem sjást hérna á þessum hjólum verða umsvifalaust kærðir. Það er að sjálfsögðu í lagi að stunda þetta á þar til gerðum brautum og ég hef fulla samúð með þeim sem stunda þetta á löglegan hátt. Það er auðvitað þannig eins og með svo margt annað að stór hluti þessa hóps gerir þetta löglega en svo eru einhverjir sem skemma fyrir. Stærri hlutinn þarf þá einfaldlega að snúa upp á handlegginn á þessum sem eru að eyðileggja fyrir þeim.” Rúnar Már er sammála Snorra og telur nauðsynlegt að gera eitthvað í þessum málum. “Þetta er auðvitað stanslaust í umræðunni fyrir sunnan, en samt virðist vera mjög erfitt fyrir einhverja aðila að læra þetta. Ég veit að þeir standa í miklu basli og það gengur erfiðlega að fá svæði fyrir torfæruhjól. Það þarf ekki nema tíu manns til að eyðileggja fyrir þúsund.”

Varðandi úrslit kosninganna hérna á Skessuhornsvefnum og greinilegan vilja lesenda varðandi viðurlög við akstri utan vega segir Rúnar Már þegnskylduvinnu vera góða hugmynd. “Já það væri bara ekkert svo vitlaust. Láta þá sem skemma bæta fyrir það.”

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Framleiðnisjóður Landbúnaðarins

Fram á völlinn

Grundarfjarðarbær

Fundaröð um vegamál á Vesturlandi

Grundarfjarðarbær

Bæjarstjórnarfundur

Dalabyggð

Sveitarstjórn Dalabyggðar - 181. fundur

Grundarfjarðarbær

Gjöf frá Lionsklúbbi Grundarfjarðar

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is