Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
07. maí. 2005 09:53

Vel heppnað Fjórðungsmót á Kaldármelum

Fjórðungsmóti Vesturlands á Kaldármelum lauk undir kvöld á sunnudag en þá hafði það staðið frá því á fimmtudegi. Mótið var vel sótt, en ríflega 2000 manns voru á svæðinu. Veðrið setti eitthvað mark á aðsókn því gera má ráð fyrir að ef hlýrra og þurrviðrasamara hefði verið á landinu um helgina hefðu fleiri áhugasamir mætt í kjarrivaxna brekkuna til að fylgjast með skemmtilegu móti. Mótshaldið fór vel fram og var í senn bæði fróðlegt og skemmtilegt, skipulagning var góð, tímasetningar stóðust ágætlega, þulir stjórnuðu af röggsemi sem og aðrir þeir sem komu að mótsstjórn.

 

Unga kynslóðin áberandi

Mótið að þessu sinni endurspeglar öðru fremur mikla framför sem orðið hefur í hestamennsku á Vesturlandi og eru nokkur atriði sem vafalítið standa uppúr í hugum margra. Má þar fyrst nefna gríðarlega öflugar sýningar yngstu knapanna á mótinu sem sýndu að þeir eru í mörgum tilfellum engir eftirbátar eldri og reyndari knapa enda var ekkert til sparað í gæðingunum sem þau höfðu til afnota. Í nokkrum hestamannafélögum í landshlutanum er greinilega verið að vinna gott starf með unga fólkinu í þjálfun, aga og sýningarhaldi og var uppskorið eftir því. Þá ber að nefna háar einkunnir kynbótahrossa og sérstaklega meteinkunnir hæstu stóðhestanna fjögurra og fimm vetra, þeirra Glyms frá Innri Skeljabrekku, fjögurra vetra og Sólons frá Skáney, fimm vetra sem hvor um sig standa hæst eða meðal hæst dæmdu stóðhesta í sínum aldursflokkum í heiminum í dag. Bæði þessi atriði sem nefnd hafa verið, þ.e. ungir og efnilegir knapar og úrvals kynbótahross eru ótvíræð merki um að hestamennska í fjórðungnum verður áfram í framför.

 

Nokkur úrslit

Forkeppni í gæðingakeppni og tölti fór fram á fimmtudag og föstudag. Á föstudagskvöldið fóru fram úrslit í tölti unglinga og ungmenna og keppt var í 100 m skeiði.

Á laugardeginum fór fram yfirlitssýning kynbótahrossa. Guðlaugur Antonsson, hrossaræktarráðunautur sagði við mótslok að honum sýndist hrossaræktin á Vesturlandi vera í mikilli framför og vestlensk hross væru engir eftirbátar annarra. Nefndi hann m.a. að nú hafi 60 hross náð lágmarkseinkunn inn á mótið á móti 30 fyrir fjórum árum. Sérstaklega fannst Guðlaugi yngri hrossin lofa mjög góðu.

Töltúrslit voru að venju ein skemmtilegasta sýningargreinin og fór hún fram á laugardagskvöldinu þegar veðrið var hvað best. Töltið sigraði Viðar Ingólfsson á Tuma frá Stóra-Hofi eftir harða viðureign við Þorvald Árna Þorvaldsson á Blíðu frá Flögu.

Í A-flokki stóðhesta sigraði Dagur frá Strandarhöfði og Stefán Friðgeirsson en Tjörvi frá Ketilsstöðum hafði verið efstur inn í úrslit. Í B-flokki stóðhesta sigraði Frakkur frá Mýnesi og Logi Laxdal.

Í B og A flokkum gæðinga var hart barist um efstu sætin. Í B flokki var Tindur frá Múlakoti efstur eftir forkeppnina. Í úrslitunum varð Berglind Rósa Guðmundsdóttir á Þjótanda frá Svignaskarði efst og Karen Líndal Marteinsdóttir á Flygli frá Vestri Leirárgörðum í öðru sæti.

Síðasti dagskrárliður mótsins, að venju, voru úrslit í flokki alhliða hrossa. Eitill frá Vindási kom efstur inn í úrslit og þrátt fyrir harða keppni hafði hann sigur með einkunnina 8,74 og varði hinn ungi og bráðefnilegi, Þingnesættaði knapi Eyjólfur Þorsteinsson stöðu sína í forystunni. Í öðru sæti varð Sveinn Ragnarsson á Þengli frá Laugavöllum.

 

Glæsilegar ræktunarsýningar

Fimmtán ræktunarbú sýndu úrval hrossaræktunar sinnar. Þessi bú voru: Berg, Hallkelsstaðahlíð, Hömluholt, Innri Skeljabrekka, Lambastaðir, Leirulækur, Litla Berg, Nýibær, Skáney, Skipanes, Stakkhamar, Stóri Ás, Svignaskarð, Vestri Leirárgarðar og Ölvaldsstaðir IV. Allar þessar sýningar voru búunum til mikils sóma enda greinilega vandað til þeirra í hvívetna. Ákveðið var að þessu sinni að gera ekki upp á milli árangurs heldur tóku forsvarsmenn ræktunarbúanna við viðurkenningu að sýningum loknum. Breiddin í hópunum var mikil og endurspeglar misjafnar áherslur ræktenda þar sem hver hópur hefur sína sérstöðu hvað varðar t.d. liti, fas, gang, kosti og ýmislegt fleira. Þessi fjöldi góðra ræktunarbúa á Vesturlandi er gleðiefni og ekki síst fjölgun þeirra frá Fjórðungsmótinu 2001 þegar 9 bú sýndu.

 

Framkvæmdastjórinn ánægður

“Það er alveg óhætt að segja að ég hef enga ástæðu til annars en að vera mjög kátur nú í mótslok með hvernig til tókst. Þetta gekk allt eins vel og kostur var, starfsfólk stóð sig með prýði og mótsgestir eiga heiður skilinn fyrir gott skap, sem gerir skemmtilegt mót, umgengni var til fyrirmyndar, allt gekk slysalaust og almennt allir sem hönd lögðu á plóginn skiluðu sínu vel og mótið endurspeglaði það,” sagði Bjarni Jónasson, framkvæmdastjóri í samtali við Skessuhorn í mótslok. Talið er að á Kaldármelum hafa verið liðlega 2000 manns. “Það borguðu sig inn um 1500 fullorðnir og þeim til viðbótar eru börn og starfsmenn þannig að þetta gæti hafa verið um 2200 manns þegar allt er talið. Þetta er svipaður fjöldi og ég spáði og fjárhagslega sýnist mér að dæmið gangi upp hjá félögunum.”

 

Mót að fjórum árum liðnum

Aðspurður um hvað standi uppúr eftir mótið segir Bjarni að persónulega hafi sér fundist töltið gera það. “Mótið endurspeglaðist af mjög sterkum hrossum og er engin ein grein undanskilin í því sambandi. Kynbótahross voru að fá háar einkunnir og það er greinilegt að vestlenskur hestakostur hefur tekið miklum framförum frá því síðasta mót var haldið fyrir fjórum árum síðan. 15 ræktunarbú sýndu úrval hrossa og voru með frábærar sýningar hvert á sinn hátt.”

Bjarni segir að ekki sé reiknað með öðru en næsta mót verði samkvæmt venju haldið eftir fjögur ár. “Miðað við tal fólks á og eftir mótið eru menn ekki síður ánægðir nú en eftir síðasta mót 2001. Þó svo að veðrið hefði mátt vera betra, var það ekki svo slæmt að ekki hafi verið hægt að klæða það af sér. Við höfðum sól á milli skúra en það sem mest er um vert var að það var stöðug sól í sinni fólks alla mótsdagana og því voru allir ánægðir,” sagði Bjarni Jónasson að lokum.

 

Hestamót eru einnig annað og meira en stöðugar sýningar hrossa. Kvölddagskrá og dansleikir voru í lautinni góðu, hópreið, hugvekja á sunnudegi, Löngufjörureið er og verður ómissandi dagskrárliður meðan mótið fer fram á Kaldármelum og voru margir sem nýttu sér hana. Yngsta kynslóðin fékk sýningu Ávaxtakörfunnar í kaupbæti og söngmenn skemmtu svo fátt eitt sé nefnt. Af þessu má sjá að af nógu var að taka í dagskrá og keppni á Fjörðungsmóti vestlenskra hestamanna sem var skipuleggjendum mótsins til mikils sóma. Til hamingju hestamenn!

 

Nokkur af helstu úrslitum:

 

Tölt opinn flokkur:

1. Viðar Ingólfsson / Tumi frá Stóra-Hofi, 8,56

2. Snorr Dal / Hlýr frá Vatnsleysu, 8,33

3. Þorvaldur Árni Þorvaldsson / Blíða frá Flögu, 7,83

4. Sveinn Ragnarsson / Loftfari frá Laugavöllum, 7,78

5. Haukur Tryggvason / Ósk frá Halldórsstöðum, 7,50

6. Sigurður Sigurðarson / Skeggi frá Hvolsvelli, 4,67

 

Tölt, úrslit í barnaflokki:

1.  Rakel Nathalia Kristinsdóttir / Vígar frá Skarði, 7,33

2. Ragnar Tómasson / Frosti frá Glæsibæ, 6,72

3. Agnes Hekla Árnadóttir / Öðlingur frá Langholti, 6,50

4. Ólöf Rún Guðmundsdóttir / Glampi frá Fjalli, 6,50

5. Flosi Ólafsson / Skolli frá Akureyri, 6,06

 

A flokkur stóðhesta:

1. Stefán Friðgeirsson / Dagur frá Strandarhöfði, 8,66

2. Snorr Dal / Gauti frá Gautavík, 8,44

3. Bergur Jónsson / Tjörvi frá Ketilsstöðum, 8,36

4. Guðmundur Arnarson / Greifi frá Dalvík, 8,34

5. Oddrún Ýr Sigurðardóttir / Hamur frá Þóroddsstöðum, 8,19

 

B flokkur stóðhesta:

1. Logi Þór Laxdal / Frakkur frá Mýnesi, 8,65

2. Sigurður Vignir Matthíasson / Kolviður frá Skeiðháholti, 8,64

3. Jón Páll Sveinsson / Hjörtur frá Holtsmúla 1, 8,64    

4. Sigurður Sigurðarson / Hvinur frá Egilsstaðakoti, 8,63

5. Súsanna Ólafsdóttir / Óttar frá Hvítárholti, 8,19

 

A flokkur-gæðinga

1. Eyjólfur Þorsteinsson / Eitill frá Vindási, 8,74

2. Sveinn Ragnarsdóttir / Þengill frá Laugavöllum, 8,63

3. Atli Guðmundsson / Blær frá Hesti, 8,56

4. Sigurður Sigurðarson / Börkur frá Stóra-Hofi, 8,54

5. Olil Amble / Þula frá Hellubæ, 8,54

6. Jakob Svavar Sigurðsson / Einir frá Gullberastöðum, 8,39

7. Lárus Ástmar Hannesson / Galsi frá Birkihlíð, 8,37

8. Jóhann Kristinn Ragnarsson / Sleipnir frá Efri-Rauðalæk, 8,17

 

B flokkur gæðinga

1. Berglind Rósa Guðmundsdóttir / Þjótandi frá Svignaskarði,8,69

2. Karen Líndal Marteinsdóttir / Flygill frá Vestri-Leirárgörðum, 8,66

3. Jakob Svavar Sigurðsson / Svanur frá Borgarnesi, 8,64

4. Sigurður Sigurðarson / Ylur frá Akranesi, 8,59

5. Þorvaldur Árni Þorvaldsson / Von frá Eyri, 8,58

6. Alexander Hrafnkelsson / Tindur frá Múlakoti, 8,54

7. Ólöf Guðmundsdóttir / Hrafn frá Berustöðum, 8,49

8. Lárus Ástmar Hannesson / Seðill frá Hólum, 8,42

 

Barnaflokkur

1. Flosi Ólafsson / Skolli frá Akureyri, 8,59

2. Heiðar Árni Baldursson / Snerpa frá Stóru-Ásgeirsá, 8,50    

3. Þórdís Fjeldsteð / Vinur frá Akranesi, 8,46

4. Logi Sigurðsson / Þáttur frá Efri-Þverá, 8,29

5. Svandís Lilja Stefánsdóttir / Demantur frá Skipanesi, 8,27

6. Kristrún Sveinbjörnsdóttir / Svarri frá Víðidalstungu II, 8,26

7. Klara Sveinbjörnsdóttir / Stjarna frá Mosfellsbæ, 7,98

8. Rúnar Þór Ragnarsson / Hylling frá Stóra-Langadal, 7,96

 

Unglingaflokkur                                                                    

1. Sigurborg Hanna Sigurðardóttir / Rökkvi frá Oddsstöðum I, 8,68

2. Guðbjartur Þór Stefánsson / Máni frá Skipanesi, 8,56

3. Ingólfur Örn Kristjánsson / Pjakkur frá Urðarbaki, 8,42

4. Ásta Mary Stefánsdóttir / Glymur frá Skipanesi, 8,39

5. Jóna Lind Bjarnadóttir / Sörli frá Grímsstöðum, 8,35

6. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir / Léttir frá Húsey, 8,29

7. Sólveig Ósk Guðmundsdóttir / Hríma frá Ölvaldsstöðum IV, 8,20

8. Telma Björk Sörensen / Hrafn frá Skefilsstöðum, 7,70

 

Ungmennaflokkur

1. Jóhann Kristinn Ragnarsson / Feykir frá Neistastöðum, 8,57

2. Karen  Emilía Barrysdóttir Woodrow / Valur frá Skáney, 8,49

3. Maríanna Gestsdóttir / Kúskur frá Miðey, 8,39

4. Elísabet Fjeldsted / Bliki frá Skáney, 8,33

5. Sóley Birna Baldursdóttir / Nasi frá Múlakoti, 8,28

6. Helgi Már Ólafsson / Svarta-Systir frá Stóra-Vatnsskarði, 8,23

7. Guðmundur Margeir Skúlason / Fákur frá Feti, 8,20

8. Birta Sigurðardóttir / Þjálfi frá Skarði 1, 7,94

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is