Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
22. júlí. 2005 12:20

OR kaupir vatns- og hitaveitu Stykkishólms - Verðið lækkar

Samningar hafa tekist um kaup Orkuveitu Reykjavíkur á vatns- og hitaveitu Stykkishólmsbæjar.  Húshitunarkostnaður á veitusvæðinu mun lækka um allt að 35% þann 1. september næstkomandi. Grunngjaldskrá fyrir heitt vatn mun lækka strax og nýtt verð gilda frá 1. september næstkomandi. 
Verð á vatni til húshitunar lækkar úr 101,5 krónum á rúmmetrann niður í liðlega 65 krónur.

Verðmæti  Orkuveitu Stykkishólms hefur verið metið á 615 milljónir króna og þegar búið er að draga frá skuldir og taka tillit til lækkunar á gjaldskrá fær sveitarfélagið um 50 milljóna króna greiðslu við söluna.  Lækkun á verði heita vatnsins er metin til um 200 mkr. virðis fyrir íbúa veitusvæðisins.

Vatnsveita Stykkishólms sækir vatn sitt í Svelgsárhraun í uþb. 13 km fjarlægð frá Stykkishólmi og var tekin í notkun 1973. Hitaveita Stykkishólms var byggð í kjölfar ítarlegrar jarðhitaleitar á Snæfellsnesi á árunum 1995 til 1996  og fannst jarðhiti á Hofstöðum rétt utan við bæinn og var þar boruð hola sem nú er nýtt til að þjóna Stykkishólmsbæ en hitaveitan hóf síðan starfsemi síðla árs 1999. 

 

Hitaveita Stykkishólms er ólík hefðbundnum jarðhitaveitum að því leyti að jarðhitavatnið er leitt til bæjarins að varmaskiptastöð þar sem þaðhitar upp vatn í lokaðri hringrás hitaveitunnar.  Undanfarin ár hefur vatnsborð í jarðhitageyminum verið að falla og gert er ráð fyrir því að farið verði í framkvæmdir innan tíðar við niðurdælingu í jarðhitasvæðið.  Bora þarf nýja holu við jarðhitasvæðið og leiða jarðhitavökvann að og í holuna.

 

Fram hefur komið að Stykkishólmsbúar sjái sér hag í því að fá öflugt fyrirtæki inn á svæðið til þess að þróa veituna áfram, meðal annars til að leggja í rannsóknir við leit að meira vatni en veitan hefur nú yfir að ráða og auka nýtingarmöguleikana.

Orkuveitan mun taka við rekstri hitaveitunnar þann 1. september 2005 og vatnsveitunnar þann  1. janúar 2006. 

 

Heildartekjur vatnsveitunnar breytast lítið sem ekkert en verðskrá vatnsveitunnar mun taka breytingum.  Hætt verður að miða vatnsgjald við ákveðið hlutfall af fasteignamati og mun vatnsgjald framvegis samanstanda af fastagjaldi fyrir hverja íbúð auk fermetragjalds.  Ný gjaldskrá tekur gildi um áramót og verður gjaldskráin kynnt bæjarbúum þegar nær dregur.

Fyrir utan vatns- og hitaveituna, kemur fram í ákvæðum samningsins að Orkuveita Reykjavíkur muni beina verkefnum tengdum Heilsuborgarverkefninu að Stykkishólmi að svo miklu leyti sem það er talið henta og í samráði við stjórnendur Heilsuborgarverkefnisins og Stykkishólmsbæjar.  Undanfarin ár hefur Stykkishólmsbær tekið þátt í verkefnum til að koma á framfæri, hérlendis sem erlendis, jarðhitavatninu sem talið er hafa einstaka eiginleika. 

 

Árið 2001 fékk Heilsuefling Stykkishólms ehf. vottun á heita vatninu í Stykkishólmi. Sú vottun kom frá þýskri stofnun, Institut Fresenius, sem sérhæfir sig í vatns og umhverfisvottun. Segja þeir vatnið sérstaklega gott og þá einna helst við stoðkerfasjúkdómum. Fram kom á heimasíðu Stykkishólmsbæjar að vatnið hafi einnig reynst gott á psoriasis-sár og exem. Vatnið er að efnainnihaldi líkt því vatni sem lengi hefur verið notað til baða í baðstaðnum Baden Baden í Þýskalandi.

Kalda vatnið, sem einnig var sóst eftir vottun á, fékk frábæra einkunn og er mælt með því til útflutnings. Þykir það henta sérstaklega vel til að blanda mjólk handa ungabörnum.

 

Skrifað var undir samninga um söluna í dag og nánar  verður greint frá þessu í Skessuhorni í næstu viku.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is