Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
12. ágúst. 2005 09:16

Ný beituframleiðsluvél smíðuð á Akranesi

Síðastliðinn fimmtudag var kynnt á Akranesi fyrsta beituframleiðsluvélin sem Ísagn ehf., nýtt fyrirtæki á Akranesi, hefur þróað og smíðað. Að fyrirtækinu standa þrír aðilar sem hver um sig hafa mikla reynslu af veiðum og vinnslu. Það eru þeir Börkur Jónsson, netagerðarmaður og fyrrverandi skipstjóri, Sigurður Már Jónsson, vélvirkjameistari sem undanfarin ár hefur starfað hjá Þ&E og Jón Frímannsson, rafvirkjameistari en hann starfaði í 40 ár sem yfirmaður hjá HB&Co. Vélin hefur verið í þróun í rétta 10 mánuði hjá þeim félögum en fyrirtækið stofnuðu þeir síðan formlega 18. júní sl. þegar ljóst var að þróunarvinna þeirra myndi leiða til árangurs.

 

 

Aukin verðmætasköpun 

Nýja vélin hefur hlotið nafnið Ísagn eins og fyrirtækið. Um er að ræða vél sem framleiðir beitu úr fersku hráefni, aðallega síld, en sambærileg vél hefur ekki verið framleidd fyrr. Framleiðslugeta vélarinnar er beita úr a.m.k. 40 síldum á mínútu, miðað við að hún sé handmötuð, þar sem hráefnið getur verið síld frá 100 til 250 grömm að þyngd, stærri síld hefur ekki verið prófuð enn sem komið er.  Hver biti sem úr vélinni kemur er að jafnaði um 2,5 cm. á breidd, en kaupendur geta ráðið hversu breiða bita þeir velja að láta vélina framleiða. Vélin klýfur síldina nákvæmlega eftir miðju og nýtir alla nothæfa hluta síldarinnar, einungis haus og minniháttar afskurður fer frá. Framleiðslugeta vélarinnar jafngildir því að á 8 klukkustundum getur hún skorið beituteninga fyrir 576 bjóð, 500 króka long, sem dugar í róður fyrir um 24 báta ef hver um sig rær með 24 bjóð. Framleiðslan fer af færibandi vélarinnar beint í lausfrystingu og verður afgreidd í hentugum umbúðum, t.d. í loftþéttum 500 bita pakkningum, en forsvarsmenn Ísagns leggja mikla áherslu á að með þessari framleiðsluaðferð við beitugerð sé hægt að stórauka gæði framleiðslunnar með því t.d. að frysta síldina ekki fyrir skurð. Eigendurnir segjast jafnframt fullvissir um að vélin stuðli að aukinni verðmætasköpun í sjávarútvegi, auki nýtingu síldarinnar og í sumum tilfellum margfaldi verðmæti hráefnisins, miðað við að hún færi ella í bræðslu. Einnig mun vélin létta til mikilla muna störf við beitingu frá því sem verið hefur. Sótt hefur verið um einkaleyfi á vélinni hjá Einkaleyfastofu. Vélin er ekki stór um sig og getur því verið staðsett um borð í síldveiðiskipum með frystibúnað um borð. Markmiðið er þó að koma vinnslunni í fyrstu upp á land í samvinnu við aðila sem gætu staðið að mikilli framleiðslu. Öflugt fyrirtæki með góða aðstöðu fyrir slíka framleiðslu gæti hæglega framleitt á haustvertíðinni ársnotkun á beitu fyrir innlendan markað og jafnvel töluvert magn til útflutnings.

 

Haraldur renndi inn fyrstu síldinni 

Kynning á vélinni fór fram í húsnæði félagsins að Ægisbraut 27b. Viðstaddir voru m.a. fulltrúar frá Impru nýsköpunarmiðstöð Iðntæknistofnunar sem styrkti verkefnið um 200.000 krónur og fulltrúi frá AVS, rannsóknarsjóði í sjávarútvegi, sem styrkti verkefnið um eina milljón króna. Einnig voru viðstaddir ýmsir aðilar sem tengjast sjávarútvegi á Akranesi en það var Haraldur Sturlaugsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri HB&Co sem gangsetti vélina formlega með því að renna fyrstu síldinni í gegn.

Forsvarsmenn Ísagns segja að nú þegar vélin sé fyrst kynnt, sé eftir öll vinna við markaðssetningu afurðanna, enda hafa þeir farið hljótt með þróun og smíði hennar fram að þessu, eins og jafnan borgar sig þegar góðar hugmyndir eru annarsvegar. “Við höfum verið hvattir til að kynna vélina á sjávarútvegssýningunni í Kópavogi í haust og er verið að skoða það en skipulagning markaðssetningar er alveg eftir. Við erum hinsvegar fullvissir um að tæknilega er vélin að virka vel og það er enginn vafi á því að framleiðsluvél af þessu tagi mun auka til muna framleiðsluverðmæti í síldarveiðum og vinnslu beitu. Við bindum vonir við að framleiðslan verði góð markaðsvara bæði hér heima og erlendis,” sagði Börkur Jónsson, framkvæmdastjóri Ísagns ehf. í samtali við Skessuhorn. “Framhald þessa máls veltur á mörgum þáttum og þá einkanlega því hvaða móttökur framleiðslan fær. Á næstunni verður unnið að því að ná samningum við fyrirtæki sem sæi sér hag í og hefði aðstöðu til að framleiða tilbúna beitu í stórum stíl í hentugum umbúðum, bæði fyrir innanlandsmarkað og til útflutnings. En til þess þarf viðbótarbúnað sem þegar er þekktur og er víða til í síldarvinnslum. Enn fremur verður kannað hvernig verður staðið að framleiðslu á vélinni.  Hlutverk okkar mun því í framtíðinni aðallega verða frekari þróun vélarinnar, viðhald og þjónusta,” sagði Börkur að lokum.

Þess má geta að samhliða frumkynningu á vélinni var opnuð ný heimasíða fyrirtækisins á slóðinni www.isagn.is þar sem er að finna nánari upplýsingar um vélina.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is