Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
17. ágúst. 2005 11:32

Bætt aðstaða og tvær nýjar brautir í FVA

Hörður Helgason, skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands segir litlar breytingar verða á starfsliði skólans þennan veturinn, þó að hilli undir nýjungar í skólastarfi og húsakosti. “Það er yfirleitt sama fólkið sem starfar hér og myndar ákveðinn kjarna. Við erum heppin með kennara og reyndar allt starfsfólkið og ég er ánægður með allt sem snýr að skólanum,” segir Hörður. Hann segist þó ekki vera eins ánægður með fjárheimildir til skólans sem eru ekki nægar. Um 50 nemendur eru enn á biðlista eftir áframhaldandi skólvist við FVA og munu þeir ekki fá að vita fyrr en upp úr miðjum ágúst hverjir fá inngöngu og hverjir ekki. “Ég er auðvitað vonsvikinn með það að við höfum ekki nægar fjárheimildir til að taka á móti öllum þeim nemendum sem sækja um skólavist. Það er mjög erfitt að þurfa að segja nei og eitt það versta sem maður getur lent í sem skólameistari. Ég get bara vonað að við fáum skilning á þessu máli hjá ríkinu. Íbúum á þessu svæði er að fjölga og við verðum að fá að njóta þess.”

 

Hörður segir skólann hafa nægt pláss og aðstaða sé til að taka á móti fleiri nemendum, en á móti vanti fjármagnið til að standa undir meiri fjölda. “Fjárveitingavaldið skammtar okkur aðeins fjármagn fyrir 540 nemendur í fullu námi. Við teljum okkur þurfa fjármagn fyrir 550-560 nemendur til að sinna öllum þeim sem vilja stunda nám hérna.” Þetta þýðir að margir nemendur sem hafa af einhverjum ástæðum snúið sér að öðrum hlutum en ætli sér svo að halda áfram námi geta átt erfitt með að komast aftur að. “Það er mjög slæmt ef það er orðin áhætta fyrir ungt fólk að taka sér hlé frá námi, því margir geta haft gott af því.”

 

Breytt og bætt

 

Í Fjölbrautaskóla Vesturlands verður boðið upp á tvær nýjar brautir í vetur; tölvufræði-braut, sem er þrjú ár og starfstengda félagsmála- og tómstundabraut sem er tvö ár. Svo verður hægt að byggja ofan á þær ef áhugi og geta er fyrir hendi. Einnig er unnið að miklum breytingum á húsnæðinu. Hörður segir aðstöðu fyrir nemendur og kennara skólans alltaf vera að batna.“Ég er ánægður með uppbygginguna í skólanum. Við tökum í notkun í haust efri hæð í nýbyggingu og tengibyggingu. Þar verður meðal annars kærkomin lyfta. Þá kemur annar inngangur inn í skólann sem verður væntanlega mikið notaður, en þá er gengið inn frá Vallholti.” Þar verða almennar kennslustofur og sérútbúin líffræðistofa auk kennslu í ensku, íslensku, stærðfræði, sálfræði og fleiri fögum. Alls eru þetta 10 nýjar skólastofur, 5 voru teknar í gagnið í vor og núna verður byrjað að nota hinar 5 og verður þá ekki lengur þörf fyrir tvö gömul hús sem nýst hafa sem kennslustofur og verður ekki mikil eftirsjá í þeim.

“Það verður unnið í haust við að endurbæta elsta hluta skólahússins sem er gamli gagnfræðaskólinn, en það hús var byggt í kringum 1957. Efri hæðin er nú tekin algerlega í gegn, þar verða stofur fyrir raungreinakennslu, tvær verklegar og tvær stofur sem þjóna bæði bóklegum og verklegum greinum. Þeim framkvæmdum verður lokið um áramót og verður þá mjög góð aðstaða hér til raungreinakennslu og með því besta sem gerist í íslenskum framhaldsskólum.”

Að sögn Harðar eru hugmyndir komnar upp á borðið varðandi málefni heimavistarinnar, en nú um sinn verður hún óbreytt. “Það eru 64 pláss þar, en við þurfum að fara að stækka hana því það eru alltaf einhverjir sem fá ekki inni og þurfa að treysta á almennan leigumarkað. Það er síaukin aðsókn nemenda utan Vesturlands og hér eru nemendur að sækja um frá Norðvesturlandi og víðar, þannig að þá má segja að Vesturland sé alltaf að stækka.”

 

Stoltur af skólanum

 

Í FVA er boðið upp á fjölbreytilegt nám á starfstengdum brautum svo og verknáms- og bóknámsbrautum. “Ég er stoltur af þessum skóla. Þetta er fjölbreytilegur hópur hér í skólanum og breitt námsframboð hér miðað við stærð skólans. Nemendurnir okkar fara héðan í háskóla, innanlands og erlendis og ekki síður beint út í atvinnulífið. Nemendur vilja koma og læra hérna og þeir sem útskrifast héðan eru að standa sig vel í atvinnulífinu og í áframhaldandi námi. Það er jú besta leiðin til að dæma starf okkar hér, hvernig nemendum líður í skólanum meðan þeir eru við nám og hvernig þeir standa sig eftir útskrift. Það segir mest um skólann.”

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is