Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
17. ágúst. 2005 11:34

Unnið af hugsjón í Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Annað starfsárið er að fara af stað í Fjölbrautaskóla Snæfellinga, en skólinn verður settur þann 22. ágúst n.k. Í áætlunum var gert ráð fyrir að fullskipaður skóli hefði 170 nemendur en þeir verða á milli 180 og 190 í vetur, þannig að það er óhætt að segja að áhugi á skólanum hafi farið fram úr björtustu vonum. “Í fyrra voru 120 nemendur á haustönn, 140 nemendur á vorönn og verða núna yfir 180,” sagði Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari.

“Það eru einnig margir eldri nemendur sem eru að koma til baka. Þetta eru þá krakkar sem hafa verið í öðrum skólum en vilja auðvitað snúa aftur á heimaslóðir þegar tækifærið býðst. Það er mjög ánægjulegt að þróunin sé sú, að þau vilji koma aftur í sína heimabyggð. Ég er líka sannfærð um að það sé einnig betra fyrir samfélögin hér að krakkarnir fái að vera heima hjá sér sem lengst. Það er ekkert fýsilegt að senda 16 ára börn í burtu, þó að það geti virst spennandi.” Guðbjörg segir að ýmsir vaxtarverkir hafi verið fyrsta árið, enda ekki við öðru að búast á fyrsta starfsári nýs framhaldsskóla, en að það hafi gengið vel að vinna úr málunum. “Það er afskaplega góður hópur hér við störf og góður andi. Hlutirnir eru bara látnir ganga og við gerum það sem þarf að gera.” Það eru 19 manns sem koma að starfsemi skólans daglega, en einnig eru 7 kennarar í hlutastarfi eða gestakennarar. “Það er mikill kraftur í starfsfólkinu hér og unnið af mikilli hugsjón og það skilar sér alltaf.”

 

Frelsið ekki skilyrðislaust

Í vetur ætlar starfslið FSN að útfæra suma hluta námsins aðeins öðruvísi að fenginni reynslu frá síðastliðnum vetri og halda áfram að þróa nýja kennsluhætti. “Skólinn er að mörgu leyti framúrstefnulegur. Við brjótum upp skipulagið til dæmis með stundatöflunum og sköpum þannig nemendum meiri sveigjanleika. Helmingur tímanna er fastur en hinum helmingnum getur nemandinn ráðstafað eftir eigin hagsmunum, allt eftir því hvernig hann stendur í náminu. Þetta virkar sérlega vel með eldri nemendurna en við þurfum skiljanlega að hjálpa þeim yngri og ala þetta upp í þeim ef svo má segja. Þau gera sér ekki alltaf grein fyrir því að þau bera svo mikla ábyrgð á sínu námi sjálf. Það þarf að hjálpa þeim að vera sjálfstæð og svo er auðvitað mjög mismunandi hvað nemendur þurfa mikla aðstoð. Aðalatriðið er að þau geri sér grein fyrir því að frelsið er ekki skilyrðislaust. Hér gildir mikið frjálsræði fyrir þá sem standa sína “pligt” og vinna vinnuna sína. Þeir nemendur hafa óskert frelsi til að skipuleggja sig sjálfir. Hinir, sem ekki vinna nógu vel, eru skyldaðir til að mæta í fleiri tíma.” Íþróttakennslan í skólanum er dæmi um nýstárlega kennsluhætti. Nemendur þurfa að skila inn ákveðið mörgum tímum á önn. Í skólanum er tækjasalur þar sem íþróttakennarinn er viðstaddur og lætur hverjum og einum nemanda í té æfingaprógramm sem hann fer eftir, en gerir það þegar hann hefur tíma samkvæmt sinni stundatöflu. Hér er því ekki um að ræða hina sívinsælu leikfimitíma eins og við eigum að venjast.

 

Hugsað upp á nýtt

Nútímalegt kennsluumhverfi kallar á endurskoðun á mörgum sígildum skólareglum. Til dæmis eru í FSN ekki eins strangar reglur varðandi farsímanotkun og algengt er. “Skólinn okkar hefur ekki stofur, heldur stór rými með mörgum hópum, þannig að við gátum ekki sett þessa reglu um enga farsíma í skólastofum. Við settum því þá grundvallarreglu varðandi þetta að nemandi ætti sjálfur að bera ábyrgð á því að gsm síminn hans trufli ekki vinnufriðinn. Þetta hefur reynst mjög vel.

Töluvert þurfti að huga að hljóðinu í hönnun skólahússins: “Já, það þarf að hugsa margt upp á nýtt. Auðvitað var fyrirsjáanlegur sá vandi að það yrði hávaði þar sem verið er að kenna mörgum hópum í sama stóra salnum. Þessvegna er húsnæðið hannað með þetta í huga og við höfum ekki verið í vandræðum með þennan þátt. Það má einnig líta á þetta með hljóðið sem hluta af þessari nýju hugsun sem er í gangi hérna. Þannig er svo komið að þegar nemandinn kemur út í atvinnulífið, getur hann ekki gengið út frá því að hann hafi vinnuaðstöðu þar sem hann hefur fullkominn frið. Opin rými eru orðin viðtekin venja á vinnustöðum og fólk verður að geta einbeitt sér þó það sé ekki alveg hljótt í kringum það. Þar sem flestir nemendurnir eru í skólanum frá klukkan 8 til 16, þegar þeir fara til síns heima með rútum, eru stjórnendur skólans að reyna að innleiða þá stefnu hjá nemendum að einn skóladagur sé eins og einn vinnudagur. Í skólanum eru rými til að vinna “heimavinnu” og svo eru verkefnatímar þar sem kennarar veita aðstoð við lærdóminn.

Þráðlaust net er í öllum skólanum og allt kennsluefni á vefnum. “Auðvitað er nauðsynlegt að slappa af og rækta félagslífið í skólanum, en það er mjög gott fyrir þau að geta verið búin með vinnu dagsins þegar þau fara heim og eiga ekki lærdóminn eftir um kvöldið.” Allt hjálpar þetta til við að gera nemendur Fjölbrautaskóla Snæfellinga að ábyrgum og vel skipulögðum einstaklingum sem eru vel í stakk búnir fyrir atvinnulífið eða áframhaldandi skólagöngu, eins og Guðbjörg bendir á.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is