Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
24. ágúst. 2005 10:57

Tónlistarskólarnir að hefja vetrarstarfið

Fjölbreytt og skemmtilegt vetrarstarf tónlistarskólanna er nú að hefjast. Skessuhorn leitaði til skólastjóranna á Vesturlandi eftir tíðindum af nýjungum, fjölda nemenda og ýmsu öðru á komandi "haustvertíð".

 

 Tónlistarskóli Stykkishólmsbæjar

Nóg verður um að vera hjá Tónlistarskóla Stykkishólms í vetur þar sem aðsókn í skólann er gífurlega góð. Að sögn Jóhönnu Guðmundsdóttur, skólstjóra, er skólinn nú þegar fullskipaður. “Það er einhver biðlisti, þó flestir umsækjendur fái einhverja úrlausn sinna umsókna. Nemendafjöldinn er ekki endanlegur en verður líklega á bilinu 110-120.”

Kennsla hefst af fullum krafti í dag, miðvikudaginn 24. ágúst.  Nemendur við skólann eru á öllum aldri, frá 6 ára og uppúr. Í ár eru kennarar við skólann fimm, allir í fullu starfi, ásamt skólastjóra.  Einu breytingarnar meðal kennara í ár eru þær að Guri Hilstad Ólason, málmblásturskennari og lúðrarsveitarstjórnandi, mun láta af störfum og mun landi hennar frá Noregi, Martin Markvoll, taka við hennar starfi.

Jóhanna nefnir að fyrirsjáanlega muni starfsemi skólans verða með hefðbundnum hætti, með lúðrasveit, harmonikkusveit og gítarhópum, en verið er að ræða hugmyndir um hvernig þróa skal söngdeildina með tilliti til ásóknar unglinga í hana.  Kennsla fer fram í húsnæði gamla grunnskólans.  Þar hefur tónlistarskólinn 4 kennslustofur auk gamla íþróttasalarins sem nýtist sem tónleikasalur.  Þar fyrir utan samnýtir tónlistarskólinn eina kennslustofu með grunnskólanum. “Píanó og gítar eru alltaf vinsæl, en auk þess er kennt á hefðbundin málm- og tréblásturshljóðfæri (lúðrasveitarhljóðfæri), trommur og harmoniku,” segir Jóhanna. “Það verður líka gaman í vetur að taka þátt í undirbúningi að byggingu nýs skólahúsnæðis sem nú er í augsýn,” bætir Jóhanna við spennt. 

 

Tónlistarskólinn í Grundarfirði

Þann 1. september mun skólastarf Tónlistarskólans í Grundarfirði hefjast. Áætlað er að nemendur að þessu sinni verði svipað margir og í fyrra eða um það bil 115-120. Þó nokkrar breytingar eru á kennaraliði að þessu sinni. Friðrik Vignir Stefánsson skólastjóri mun taka sér ársleyfi eftir 17 ára starf við skólann. Í fjarveru Friðriks mun Þórður Guðmundsson frá Miðhrauni leiða hóp tónlistarnema í Grundarfirði. Einnig mun Alexandra, ung rússnesk stúlka, taka við af samlöndu sinni Elenu sem kennt hefur við skólann síðastliðin tvö ár. Grundfirðingar finna einnig fyrir skorti á tónlistarkennurum úti á landi þar sem enn hefur ekki fengist fyllt í tvær lausar stöður. Kennsla fer fram sem fyrr í samnýttri byggingu íþrótta og menntunar í Grundarfirði. Til móts við tónlistarskólann samnýtir félagsmiðstöðin húsnæðið.

Friðrik Vignir Stefánsson, fráfarandi skólastjóri segir að skólinn nái að sinna öllum nemendum sem óska eftir námi. Meirihlutinn, um 90% nemenda, eru börn og unglingar. Helst er kennt á píanó og gítar en hægt er að fá kennslu á nánast öll þau hljóðfæri sem óskað er eftir. Innan skólans er starfandi dixieland hljómsveit sem spilar létta djasstónlist. “Þessi sveit hefur verið virk í sjö ár, samansett af fullorðnum einstaklingum sem eru snilldar hljóðfæraleikarar,” segir Friðrik stoltur, en hann hefur einnig stjórnað þessum hópi af mikilli prýði öll þessi ár. Samvinna tónlistarskólans við grunnskóla og leikskóla í bænum hefur gengið afar vel. Síðustu tvö ár hefur einmitt blokkflautukennsla fyrir þrjá yngstu bekki grunnskólanna verið fastur liður í starfi skólanna.

 

Tónlistarskólinn í Dölum

Innritun hefst þann 25. ágúst næstkomandi hjá Tónlistarskóla Dalasýslu og full kennsla hefst 29. ágúst.  Kennt er á 2 stöðum, í Búðardal og að Tjarnarlundi í Saurbæ.  Áætlaður nemendafjöldi er á svipuðu róli og í fyrra, um 60 nemendur.  Að sögn Halldórs Þórðarsonar, skólastjóra hefur nemendafjöldi verið nokkuð stöðugur undanfarnar annir og komast allir að sem vilja.  Halldór telur að hlutfall fullorðinna nemenda sé um 10-15 %. Tveir fastráðnir kennarar standa að tónlistarkennslunni ásamt einum grunnskólakennara sem kennir yngstu bekkjunum í Búðardal.  Halldór útskýrir að í samvinnu við grunnskólana hefur tónlistarkennsla verið hluti af námi og leik sex ára barna.  “Öll samvinna hefur gengið vel innan héraðsins hvort sem það er í sambandi við skóla eða kirkjur,” segir Halldór. Hann nefnir einnig að töluvert samspil eigi sér stað meðal tónlistarnema bæði í Búðardal og í Saurbæ þó ekki sé starfrækt lúðrasveit í augnablikinu.  Vinsælustu hljóðfærin eru píanó og hljómborð ásamt gítar og bassa.  Einnig er kennt á trommur, harmonikku, blásturshljóðfæri og flest önnur hljóðfæri ef óskað er.

 

Tónlistarskóli Snæfellsbæjar

Tónlistarskóli Snæfellsbæjar hefur kennslu sína samkvæmt stundaskrá mánudaginn 29. ágúst. Aðalaðstaða skólans er að Hjarðartúni 6 í Ólafsvík. Þá er útibú á Hellissandi, undir stjórn Kay Wiggs og einnig fer fram kennsla á Lýsuhóli í Staðarsveit. 

“Aðsókn er einkar góð, nemendur eru um 110 talsins og þar að auki eru 10-20 nemendur á biðlista” segir Jóhann Þór Baldursson, skólastjóri Tónlistarskóla Snæfellsbæjar.  Kennarar verða 5 talsins þessa önn en breytingar á kennaraliði eru litlar.  “Það kemur nýr kennari frá Rússlandi, hann tekur við af Sigurði Gíslasyni sem við þökkum kærlega vel unnin störf síðastliðin ár,” tekur Jóhann fram. Í framhaldi af því nefnir hann að auglýst hafi verið í vor eftir íslenskum tónlistarkennurum en fáir virðast vera á lausu.  “Við fórum því þá leið að fá rússneskan tónlistarkennara að nafni Evgeniy og mun hann kenna á blásturhljóðfæri og gítar. Ég vona að aukinn áhugi vakni á stofnun lúðrasveitar, eða léttsveitar eins og var hér forðum, með komu hans til Snæfellsbæjar.”

Í vetur eru 10-15 fullorðnir einstaklingar skráðir í skólann og telur Jóhann það afar gleðilegan hlut að fullorðnir séu að fá aukinn áhuga á tónlistarnámi. Kórstarf er unnið í samvinnu við kirkjuna og grunnskólann og þar að auki er gott samstarf við leikskólana.  Helstu hljóðfæri sem kennt er á eru píanó, harmonikka, gítar, bassi, trommur, söngur, fiðla og svo öll blásturshljóðfæri.  Sem dæmi um nýstárlega starfsemi innan skólans má nefna bjöllusveitina sem þar er starfrækt. 

 

Tónlistarskóli Borgarfjarðar

Tónlistarskóli Borgarfjarðar mun hefja störf fimmtudaginn 1. september.  Um 230 nemendur eru skráðir til leiks í ár.  Kennsla fer að mestu fram í Tónlistarskólanum í Borgarnesi en þar að auki eru starfrækt útibú á Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og í Varmalandi.  Aðspurð segir Theodóra, skólastjóri Tónlistarskóla Borgarfjarðar, að engar breytingar séu á starfsliði skólans í ár og munu kennararnir 11 mæta galvaskir aftur til vinnu þessa önn.  Aðsókn er mikil sem fyrr hjá tónelskum Borfirðingum og aðspurð um biðlista segir Theodóra að þeir hafi vissulega verið til staðar undanfarin ár og horfur á að einhver biðlisti verði áfram.  “Flestir nemendur innan skólans eru börn en þó er nokkuð af fullorðnum nemendum einnig,” segir Theodóra. Kennt er m.a. á píanó, blokkflautu, gítar, fiðla, blásturshljóðfæri, söng og þar að auki er starfrækt fiðlusveit og söngsveit.  Forskóli er fastur liður og einnig fjölbreytt samvinna við grunnskólana og Fjölbrautaskólann.

 

Tónlistarskólinn á Akranesi

Tónlistarskólinn á Akranesi mun hefja störf af fullum krafti þann 1. september næstkomandi.  Nemendafjöldi þennan vetur eru áætlaðir rúmlega 300.  Kennarar eru 16 auk skólastjóra og aðrir starfsmenn eru tveir.  Einu breytingarnar á glæsilegu kennaraliði skólans þessa önnina er nýr slagverkskennari í hlutastarfi.  Lárus Sighvatsson, skólastjóri segir nemendur vera á öllum aldri, þann yngsta 6 ára og þann elsta á sjötugsaldri.  Langur biðlisti er eftir námi við skólann, nú um 100 manns, og þá sérstaklega eftir gítarnámi.  Gítarnám er afar vinsælt, nefnir Lárus og bætir við; “en þar skortir okkur á að geta sinnt þeim nemendum sem skyldi.”  Píanó er alltaf vinsælast, þverflauta, saxafónn fylgja þar fast á eftir með fiðlu og harmonikku í stöðugri sókn.  Við skólann er starfandi lúðrasveit ásamt fiðlusveit (Þjóðlagasveitin) auk þess sem minni samspilshópar eru alltaf í gangi.  “Samspil er snar þáttur í starfsemi skólans,” segir Lárus.  “Góð samvinna er einnig á milli skólans og grunnskólanna, ásamt því að sjá um tónlistarkennslu á leikskólanum Vallarseli.”  Veturinn framundan lítur út fyrir að verða afar annasamur hjá nemendum og starfsfólki skólans.  Þann 9. september verður svæðisþing tónlistarkennara haldið á Akranesi og fast á hæla þess Landsmót sambands íslenskra skólalúðrasveita frá 30. september til 2. október.  Einnig í tilefni af 50 ára afmæli Tónlistarskólans og Tónlistarfélagsins mun verða mikið um tónleikahald, söng og gleði í allan vetur.  Semsagt annasamur tónlistarvetur á Akranesi. 

 

Heiðarskóli

Heiðarskóli í Leirársveit mun hefja kennslu í dag, miðvikudaginn 24. ágúst.  Tónlistarlíf innan veggja skólans hefur ávallt verið líflegt. Tónmennt er kennd á yngsta stigi og miðstigi sem og í hópum á unglingastigi.  Að sögn Helgu Magnúsdóttur, skólastjóra í Heiðarskóla, fá allir nemendur skólans einhverja tónmenntakennslu.  Skólinn hefur einnig verið í samstarfi við Tónlistarskólann á Akranesi sem hefur undanfarin ár sinnt þar píanókennslu 2 daga í viku. Skólakór hefur oft verið starfræktur innan skólans og fyllt sveitir sunnan Skarðsheiðar fögrum hljómum. Enn er óvíst um tilvist kórsins þessa önnina.

 BG

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is