Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
26. ágúst. 2005 03:58

Gífurleg þensla á íbúðamarkaði

Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði bæði á Akranesi og í Borgarnesi er mun meiri en framboðið um þessar mundir. Gífurlegur skortur er bæði á leiguhúsnæði og smærri sem stærri eignum á söluskrá, samkvæmt upplýsingum frá fasteignasölum sem Skessuhorn ræddi við.

“Það er of lítið framboð af öllum gerðum húsnæðis hér í Borgarnesi og vantar tilfinnanlega eignir á markaðinn,” segir Ingi Tryggvason, fasteignasali í Borgarnesi í samtali við Skessuhorn. Hann segir verð á minni og meðalstórum húseignum hafa hækkað um 20-30% á liðnu ári og líklegt að það eigi eftir að hækka enn meira á næstu misserum. “Þetta er bagalegt ástand þar sem ég veit um marga einstaklinga sem vilja flytjast hingað en geta ekki sökum húsnæðisskorts.” Undir þessi orð Inga tók Páll S Brynjarsson, bæjarstjóri Borgarbyggðar. Páll segir að í sumar hafi verið úthlutað lausum lóðum við Arnarklett, búið sé að úthluta nær öllum lóðum við Kvíaholt og Stöðulsholt og í þessari viku verði opnuð tilboð í lóðir í gamla miðbæ Borgarness, alls 9 lóðum undir lítil fjölbýlishús. “Í gangi er bygging 10 íbúða blokkar við Borgarbraut sem lokið verður við um eða eftir áramót og er meirihluti þeirra íbúða þegar seldur. Einnig eru örfá einbýlishús í byggingu og framkvæmdir að hefjast við raðhús og ein blokkarbygging er á teikniborðina,” segir Páll. Í Borgarnesi hefur lítið verið byggt af íbúðarhúsnæði á liðnum árum en flestum lausum byggingalóðum var úthlutað þar fyrr sl. vor. Horfur eru á að nokkrir aðilar hefji byggingaframkvæmdir á úthlutuðum lóðum í haust og vetur þannig að gera má ráð fyrir að komið verði á næstu misserum að einhverju leyti til móts við mikla eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði.

 

Á Akranesi er svipaða sögu að segja nema þar hefur talsvert mikið verið byggt á síðustu árum af íbúðarhúsnæði og lóðir bókstaflega rokið út jafnharðan og þær hafa verið skipulagðar og færri fengið en vilja. Líkur eru til að á þessu ári verði slegið met í íbúðabyggingum í bæjarfélaginu en það met er síðan árið 1977 þegar byggðar voru 265 íbúðir á Akranesi. En þrátt fyrir miklar byggingaframkvæmdir selst allt sem byggt er jafnharðan og jafnvel áður en hús rísa. “Hér er nánast ekkert af notuðum sérhæðum, einbýlishúsum eða raðhúsaíbúðum á söluskrá, sérstaklega ekki á svæðinu fyrir ofan hringtorgið við Skaganesi. Ef íbúð eða hús í Grundahverfi eða í Jörundarholti er sett á sölu eru að lágmarki 5-10 áhugasamir kaupendur sem bítast um hverja eign og sömu sögu er að segja ef góð sérhæð fer á sölu,” sagði Daníel Rúnar Elíasson, hjá fasteignasölunni Hákoti á Akranesi. Hann hefur svipaða sögu að segja af íbúðum í blokkum sem byggðar hafa verið undanfarið eða eru í byggingu. “Í mörgum tilfellum eru byggingaverktakar að selja íbúðirnar áður en fyrsta skóflustunga er tekin. T.d. hafa Íslenskir aðalverktakar verið að byggja hér tvær átta íbúða blokkir og eina tólf íbúða sem eiga að vera tilbúnar í nóvember, febrúar og júlí. Allar íbúðirnar sem eiga að vera tilbúnar í nóvember og febrúar eru seldar og 5 íbúðir af 12 í húsinu sem á að vera tilbúið í júlí á næsta ári. Í byggingunni á Hvítanesreit eru að sama skapi 12 íbúðir af 20 þegar teknar frá þó húsið sé enn ekki nema að hluta risið. Eftirspurn á markaðinum er því mikil og vaxandi enda Akranes spennandi valkostur m.t.t. allra búsetuþátta,” segir Daníel Rúnar.

Komið hefur fram í Skessuhorni að eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði er mikil á öðrum stöðum á Vesturlandi, þ.e. í Búðardal, Reykholti, Hvanneyri, Stykkishólmi, Grundarfirði og Snæfellsbæ. Þar sem annarsstaðar er einna helst skortur á iðnaðarmönnum sem veldur því að minna er byggt af íbúðarhúsnæði en markaður er fyrir.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is