Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Miðaftann. Fjórði Óðinsdagur í Gormánuði
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
06. september. 2005 02:24

Landbúnaður er stóriðja Norðvesturlands

Tímamót í atvinnusögu Dalabyggðar við vígslu endurgerðs sláturhúss í Búðardal

 

Sveitarstjórinn í Dalabyggð segir tímamót hafa orðið í atvinnusögu Dalabyggðar við vígslu sláturhússins í Búðardal á sunnudag. Lauk þar áralangri baráttu heimamanna fyrir áframhaldandi rekstri hússins. Mikið fjölmenni var við vígsluna, þar á meðal Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, þingmenn kjördæmisins og Egill Jónsson fyrrverandi formaður stjórnar Byggðastofnunar.

Haraldur Líndal Haraldsson, sveitarstjóri Dalabyggðar sagði í ræðu sinni við vígsluna að barátta heimamanna fyrir tilvist sláturhússins hafi í raun hafist árið 2002 þegar þáverandi eigendur tóku ákvörðun um að hætta rekstri hússins. Hann sagði að sveitarstjórn Dalabyggðar hafi markvisst unnið að því að styrkja búsetuskilyrði í Dalabyggð með áherslu á atvinnumál og meðal annars sé unnið að því að byggja sveitarfélagið upp sem matvælaframleiðsluhérað. Þungamiðjan í þeirri uppbyggingu sé mjólkursamlagið og sláturhúsið og í þeirri þungamiðju komi fram áhersla á að á Norðvesturlandi verði stundaður öflugur landbúnaður í framtíðinni.

 

Stóriðja Norðvesturlands verði landbúnaður

 

Sveitarstjóra Dalabyggðar varð tíðrætt um stóriðju. Hann sagði m.a: “Bygging álvers stendur yfir á Austurlandi. Í umræðinni hefur komið fram vilji til þess að byggt verði álver á Norðausturlandi.  Álverið og járnblendiverksmiðjan við Hvalfjörð hafa styrkt byggðina í næsta nágrenni við Grundartanga.  Ætla má að draga muni úr landbúnaði á þeim svæðum þar sem stóriðja er í dag og þar sem hún mun byggjast upp í framtíðinni vegna aukinna atvinnutækifæra á þeim svæðum. Einnig mun aukin eftirspurn fólks af höfuðborgarsvæðinu eftir bújörðum í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið hafa sömu áhrif. Ekki hefur verið nein umræða um stóriðjuframkvæmdir á Norðvesturlandi. Verði rétt haldið á málum má ætla að stóriðjan á Norðvesturlandi verði landbúnaður.  Bændur á svæðinu hafa tækifæri til að eflast á sama tíma og landbúnaður dregst saman í næsta nágrenni við stóriðjur og höfuðborgarsvæðið. Við þessu vilja og eiga bændur í Dölum og sveitarstjórn Dalabyggðar að bregðast. Liður í því að styrkja landbúnað til framtíðar, litið á Norðvesturland, verður að efla afurðarstöðvarnar í Búðardal.  Samhliða því að rekið er öflugt mjólkursamlag í Búðardal verði rekið hér öflugt sláturhús og kjötvinnsla.”

 

Ný störf skapast og uppbygging framundan

 

Að sögn Haraldar starfa nú rúmlega 50 manns hjá mjólkursamlaginu. Þegar sláturhúsið var í rekstri var það þriðja stærsti vinnustaðurinn í Búðardal. Þar voru um 25 heilsársstörf, sem var um 6% af störfum í Dalabyggð. “Með fjölgun atvinnutækifæra má ætla að svæðið í heild sinni verði öflugra og eftirsóttara til búsetu.  Ný atvinnutækifæri hafa og eru að skapast.  Má í því sambandi nefna ungmenna- og tómstundabúðir á Laugum, störf við ferðaþjónustu, við sláturhúsið, á dvalarheimilinu á Fellsenda o.s.frv.  Árangur þessa er farinn að sjást. Nú í haust eru nokkrar fjölskyldur að flytja til Dalabyggðar og eru einstaklingar að byrja á framkvæmdum við ný einbýlishús.  Búið er að úthluta lóðum fyrir þrjú einbýlishús.  Hafnar eru einnig framkvæmdir hjá einkafyrirtæki sem hyggst reisa sex leiguíbúðir.  Hvaða tákn er betra um trú fólks á byggðalagi en vilji til að byggja sér eigið íbúðarhús,” sagði Haraldur.

 

Byggðastofnun kom myndarlega að málum

 

Sveitarstjóri Dalabyggðar var ánægður með hlut Byggðastofnunar í uppbyggingu í sveitarfélaginu. “Oftar en ekki hafa verk Byggðastofnunar verið gagnrýnd.  Í umræðunni hefur lítið farið fyrir þeim verkum sem stofnunin hefur komið að og skilað hafa árangri.  Í mínum huga er hægt að nefna mörg dæmi þess að stofnunin hafi komið að málum sem hreinlega hafa bjargað búsetu á viðkomandi stöðum.  Stofnunin hefur komið vel að málum okkar Dalamanna bæði með beinum og óbeinum hætti.  Leyfi ég mér þar að nefna hitaveituna, hótelið á Laugum og nú sláturhúsið.  Ég vil nota þetta tækifæri og þakka núverandi og fyrrverandi stjórnarmönnum og starfsmönnum stofnunarinnar fyrir skilning þeirra á málefnum sveitarfélagsins,” sagði sveitarstjórinn.

Sláturhúsið í Dalabyggð er í eigu sveitarfélagsins og Byggðastofnunar. Í stjórn félagsins sitja tveir fulltrúar frá Dalabyggð og einn frá Byggðastofnun. Við yfirtöku þessara aðila á sláturhúsinu árið 2002 hvíldu um 60 milljóna króna skuldir á því. Að loknum þeim miklu endurbótum sem fram hafa farið og talið er að kosti um 55 milljónir króna, er hinsvegar stefnt að því að heildarskuldir verði 25 milljónir króna. Stenst húsið nú reglugerðir um slátrun og meðferð sláturafurða.

Helstu verktakar við endurbæturnar voru Megin, Bjössi málari, Jóhann Á Guðlaugsson og Rafsel í Búðardal.

 

Dalalamb leigir húsið

 

Stefna eigenda sláturhússins er sú að félagið verði rekið sem eignarhaldsfélag um húseignina og hún síðan leigð út ásamt tækjum til rekstrar. Samkvæmt þeirri stefnu hefur nú verið gengið frá leigusamningi við Dalalamb og mun fyrirtækið taka við rekstri hússins að loknum endurbótum.  Dalalamb hefur gert samning við Norðlenska á Akureyri um kaup á öllum afurðum félagsins í ár.  Samningurinn felur í sér að 75% af afurðaverði verði greitt 31. október, þar með talið vegna útflutnings, og síðan það sem eftir stendur, eða 25%, eigi síðar en 31. desember n.k.  Þetta þýðir að samningurinn felur það í sér að allt verður greitt til bænda fyrir áramót með fyrirvara um gærur að því er kom fram í máli Haraldar. Guðmundur Viðarsson í Skálakoti hefur verið ráðinn sláturhússtjóri.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is