Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
15. september. 2005 04:47

Kemur samningur við Spöl í veg fyrir veggjöld af Sundabraut?

Fyrrverandi og núverandi samgönguráðherrar ósammála

 

Eins og kunnugt er ákvað ríkisstjórnin í síðustu viku skiptingu þeirra fjármuna sem koma fyrir sölu Símans. Meðal þeirra framkvæmda sem stefnt er að því að ráðast verði í er bygging Sundabrautar í Reykjavík. Sú framkvæmd, ef af henni verður, mun ekki aðeins hafa áhrif á íbúa Reykjavíkur heldur flesta þá sem þurfa að sækja til höfuðborgarinnar og frá henni. Til þessa verkefnis verður varið 8 milljörðum króna af Símasölunni.

 

Í fréttatilkynningu þar sem skipting fjármunanna var kynnt segir m.a: “Í gildandi vegaáætlun fyrir árin 2005–2008 er gert ráð fyrir samtals 360 m.kr. fjárveitingum í gerð vegar frá Sæbraut að Hallsvegi í Grafarvogi, svokallaðri Sundabraut. Verk þetta hefur lengi verið í undirbúningi. Úrskurður um mat á umhverfisáhrifum fyrir þennan vegarkafla liggur fyrir en hann var kærður til umhverfisráðherra sem væntanlega fellir úrskurð varðandi kærurnar nú á næstunni. Kostnaður þessa áfanga hefur verið metinn á bilinu 7½–14½ milljarður króna eftir því hvaða leið og útfærsla er valin. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja 8 milljörðum króna til þessa verks. Þessi ákvörðun tekur mið af því að svonefnd innri leið verði valin í samræmi við álit Vegagerðarinnar. Ráðgert er að hefja framkvæmdir um mitt ár 2007 og stefnt að verklokum 2010. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar felur jafnframt í sér áframhaldandi lagningu Sundabrautar upp í Geldinganes og um Álfsnes upp á Kjalarnes. Undirbúningi verði þannig háttað að unnt verði að ráðast í framkvæmdirnar samhliða árin 2009 til 2010 og síðari áfanga, þ.e. um Álfsnes upp á Kjalarnes, verði lokið árið 2011. Áætlaður kostnaður við síðari áfanga verksins er á bilinu 6-8 milljarðar króna og er fyrirhugað að hann verði boðinn út og fjármagnaður í einkaframkvæmd.”

 

Ákvæði sem bindur aðrar framkvæmdir

 

Í umræðum í kjölfar þessara ákvörðunar, og þeirrar staðreyndar að hluti hennar verður í einkaframkvæmd, hefur komið fram að stefnt sé að því að innheimtu veggjalds af umferð um hið nýja mannvirki frá Álfsnesi upp á Kjalarnes. Í því sambandi hafa menn bent á reynsluna af einkaframkvæmd við gerð jarðganga undir Hvalfjörð og veggjald sem innheimt er af umferð um þau. Við gerð þeirra ganga var gerður samningur þann 23. júní 1993 á milli ríkisins og Spalar ehf. sem á og rekur göngin. Í 4. grein þess samnings segir: “Samgönguráðherra skuldbindur sig til að greiða fyrir vegtengingunni og rekstri vegganganna jafnframt því að: ... e) Hefja ekki innheimtu vegtolla á vegum í nágrenni ganganna sem hafa myndu neikvæð áhrif á umferð um þau.” Ýmsir telja að þetta ákvæði geti beinlínis komið í veg fyrir að hægt verði að innheimta veggjald um Sundabraut.

 

Ekki veggjald á Sundabraut meðan gjald er undir Hvalfjörð

 

Halldór Blöndal núverandi forseti Alþingis var samgönguráðherra þegar samningurinn var gerður. Hans túlkun á þessu ákvæði er mjög skýr. Í umræðum á Alþingi 21. október 2004 þegar rædd var þingsályktunartillaga Guðjóns Guðmundssonar um veggjald í Hvalfjarðargöng kom hugsanleg gerð Sundabrautar til umræðu og möguleg innheimta veggjalds um hana. Þá sagði samgönguráðherrann sem undirritaði samninginn við Spöl orðrétt: “Þegar hv. þm. Jóhann Ársælsson fór að tala um það áðan að ekki væri sanngjarnt að þeir á Vesturlandi þyrftu að greiða bæði veggjald fyrir að fara Hvalfjarðargöng og síðan Sundabraut og endurtók það, olli það nokkurri undrun hjá mér því við höfum áður farið yfir það í þessum sal að í samningnum um Hvalfjarðargöng er sérstaklega tekið fram að óheimilt sé að innheimta veggjald af öðrum framkvæmdum sem ráðist yrði í á leiðinni frá Hvalfirði að hafnarmannvirkjum í Reykjavík. Það er því alveg ljóst að það getur ekki til þess komið meðan veggjald er tekið af Hvalfjarðargöngum að veggjald verði tekið af Sundabraut. Þetta er öldungis ljóst í þeim samningum sem fyrir liggja. Ef ráðist yrði í einhverja slíka framkvæmd og menn hygðust taka veggjald yrði því að fara í sérstaka samninga um það, sem ég hef ekki trú á að gert verði.” Í umræðum sem fylgdu í kjölfar ræðu Halldórs fögnuðu menn þessu ákvæði í samningnum og túlkun Halldórs. Þessi túlkun Halldórs hefur komið fram í fleiri þingræðum.

 

Ósammála fyrirrennara sínum

 

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir túlkun Halldórs á þessu ákvæði samningsins byggða á misskilningi. Þrátt fyrir að innheimt verði veggjald um hluta Sundabrautar komi það ekki í veg fyrir að hægt verði að velja aðrar leiðir að Hvalfjarðargöngum sem ekki þurfi að greiða veggjöld.

 

Tvöföld innheimta kemur ekki til greina

 

Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi og stjórnarformaður Spalar, segir aðspurður um hugmyndir um veggjöld frá og til Reykjavíkur að óhætt sé að fullyrða að frekari þröskuldar á umferð með beinni gjaldtöku verði illa séðir “Betri vegir og bættar samgöngur eiga að verða til að styrkja landsbyggðina og því er ekki skynsamlegt að bæta vegina og setja síðan upp girðingar sem draga úr þeim jákvæðu áhrifum sem framkvæmdirnar eiga að leiða til.  Bættar samgöngur milli vesturhluta landsins og höfuðborgarsvæðisins gefa fyrirheit um enn bætt búsetuskilyrði og tækifæri og því þarf að gæta að ýmsu í þessu efni til að hamla ekki þeim jákvæðu áhrifum sem vænst er að skili sér.  Hann bætir við að innan stjórnar Spalar ehf. hafi ekkert verið fjallað um ákvæði samnings milli ríkisins og Spalar ehf. um takmörkun á álagningu veggjalda sem gætu haft áhrif á umferð um Hvalfjarðargöng enda framkvæmdir við Sundabraut því miður ekki alveg handan við hornið.  “Hins vegar er það afar ánægjulegt að gera á ráð fyrir verulegum fjármunum í fyrsta áfanga Sundabrautar innan fárra ára. Hugmyndir ríkisins um gjaldtöku liggja ekki fyrir en nefnt hefur verið að komi til gjaldtöku af Sundabraut þá sé eðlilegt að það verði hluti af samræmdri gjaldtöku á stærra svæði. Einnig er fær sú leið að byggja á svokölluðu skuggagjaldi það er að ríkið greiði niður stofnkostnað og rekstur í takt við umferð um mannvirkið. Mörgum spurningum er ósvarað í þessu máli og ekkert liggur enn fyrir um stefnu ríkisins. Sú stefna þarf að mínu viti að liggja fyrir áður en frekari umræða getur farið fram, en tvöföld innheimta veggjalds á vegfarendur sem fara um Vesturlandsveg getur ekki komið til greina,” segir Gísli.

 

 

Úrlausnarefni lögfræðinga

 

Ljóst er að túlkun núverandi samgönguráðherra og þess er gerði samninginn áðurnefnda fer ekki saman. Sá er gerði samninginn er afdráttarlaus. Innheimta veggjalds um Sundabraut kemur að óbreyttu ekki til greina. Trúlega verður það úrlausnarefni lögfræðinga að túlka ákvæði hans og svara þeirri spurningu hvort hugmyndir um innheimtu veggjalds um Sundabraut skapi Speli samningsaðstöðu gagnvart ríkinu og þeim aðilum sem ráðast í framkvæmdir við Sundabraut. Þeirri spurningu verður ekki svarað að sinni.

Af almennri umræðu í byggðum norðan Hvalfjarðarganga má ráða að mikill áhugi er á framvindu þessara mála eins og annarra samgöngumála víða um land. Einkaaðliar hafa víða um land breytt gangi mála í samgöngumálum með framtaki sínu. Má auðvitað fyrst nefna Spöl. Einnig má nefna Leið ehf. á Vestfjörðum sem hóf undirbúning vegagerðar um Arnkötludal sem nú hefur verið veitt fjármagni í. Á Reykjanesi hafa oftar en einu sinni verið stofnuð samtök almennings sem þrýst hafa á framkvæmdir eins og til dæmis um tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Samtök um framfarir í samgöngumálum hafa hins vegar ekki litið dagsins ljós á sunnanverðu Vesturlandi. Hvort að það beri vott um almenna ánægju með stöðu samgöngumála í landshlutanum skal ósagt látið.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is