Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
16. september. 2005 01:42

Siglingum Baldurs ekki hætt

-segir Sturla Böðvarsson, á meðan Ódrjúgsháls og Hjallaháls eru ennþá eknir

 

Vegagerðin hefur ákveðið að fækka ferðum Breiðafjarðarferjunnar Baldurs smám saman á næstu fimm árum og að þeim tíma liðnum verði rekstri ferjunnar hætt. Sem kunnugt er hefur landleiðinni um Barðaströnd verið haldið opinni undanfarna vetur og því telur Vegagerðin óþarft að styrkja sjóflutninga sömu leið líkt og gert var þegar landleiðin var ófær mánuðum saman. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir þjónustu Baldurs ekki verða skerta á meðan Ódrjúgsháls og Hjallaháls í Barðastrandasýslu eru eknir. Hann segir engan misskilning milli sín og Vegagerðarinnar í málinu.

 

Áfram samið við Sæferðir

 

Á undanförnum árum hafa Sæferðir ehf. í Stykkishólmi séð um rekstur Baldurs samkvæmt útboði, sem fram fór á sínum tíma. Jón Rögnvaldsson, vegamálastjóri segir að samningur um rekstur ferjunnar renni út um næstu áramót en vegna breyttra aðstæðna í samgöngum á svæðinu hafi verið ákveðið að trappa rekstur hennar niður á næstu árum. Í stað nýs útboðs hafi því verið ákveðið að ganga til samninga við núverandi rekstraraðila um reksturinn næstu fimm ár. Ferðum muni því fækka með tímanum enda sé nú leiðinni haldið opinni yfir vetrartímann. “Þrátt fyrir að ýmislegt sé óunnið á þessari leið trúum við því að töluverðar framfarir verði á næstu fimm árum. Því er nú tímabært að huga að breyttum rekstri ferjunnar með góðum fyrirvara líkt og gert var í Ísafjarðardjúpi með rekstur Fagranessins á sínum tíma,” segir Jón.

Nokkrar eyjar á Breiðafirði eru nú í byggð og segir Jón að þjónusta við þær verði boðin út og henni væntanlega sinnt með minni bátum þegar hætt verður að styrkja rekstur Baldurs.

Eins og áður sagði mun ferðum Baldurs fækka smám saman en Jón segir ekkert því til fyrirstöðu að rekstraraðili skipsins haldi óbreyttri ferðatíðni telji hann það hagkvæmt. Hvað næsta ár varðar segir Jón litlar breytingar verða á ferðum skipsins.

 

Umhverfismat gæti seinkað framkvæmdum

 

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir ljóst í sínum huga að þjónusta Baldurs verði ekki skert á meðan Ódrjúgsháls og Hjallaháls í Barðastrandasýslu eru eknir. Hann segir þá farartálma og þar til þeir farartálmar verði úr sögunni verði þjónusta Baldurs ekki skert.

Á núgildandi vegaáætlun er varið 1.083 milljónum króna í vegagerð frá Svínadal í Flókalund. Samkvæmt heimildum er líklegt að framkvæmdir þær sem nú eru að fara í útboð í Svínadal gætu kostað tæpar 400 milljónir króna. Eftir standa þá tæpar 700 milljónir sem varið verður í vegagerð á Barðaströnd. Þar til viðbótar koma þær 700 milljónir króna sem veitt verður af svokölluðum Símapeningum til vegagerðar. Til skiptanna í framkvæmdir á Barðaströnd eru því um 1.400 milljónir króna. Áætlað er að framkvæmdir á Barðaströnd meðal annars við þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar, sem losa vegfarendur við farartálmana Ódrjúgsháls og Hjallaháls, kosti um 1.600 milljónir króna. Þeir fjármunir sem nú eru til skiptanna gætu því í góðu útboði farið langt með verkið.  Framkvæmdirnar á Barðaströnd eru nú að fara í umhverfismat. Samkvæmt áætlun Vegagerðarinnar verður vegur lagður um viðkvæm svæði eins og Teigskóg og hefur það valdið nokkrum skoðanaskiptum vestra. Því má ljóst þykja að umhverfismatið mun taka drjúgan tíma og á meðan verður ekkert framkvæmt. Bjartsýnustu menn innan Vegagerðarinnar segja að hugsanlega verði hægt að bjóða út framkvæmdir á Barðaströnd haustið 2006 en aðrir segja að það verði síðar. Afar ólíklegt er að framkvæmdum ljúki þar fyrr en í fyrsta lagi í lok árs 2008 enda er fjárveiting til verksins það ár 383 milljónir króna.

Af orðum Sturlu Böðvarssonar má ráða að íbúar á Snæfellsnesi og Barðaströnd þurfa því ekki að óttast að þjónusta Baldurs minnki fyrr en í fyrsta lagi á árinu 2008 og jafnvel ekki fyrr en enn síðar.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is