Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
28. september. 2005 05:45

Mekka umferðarfræðslu verður á Akranesi

Í dag var skrifað undir samning þess efnis að Grundaskóli á Akranesi gerist móðurskóli umferðarfræðslu á grunnskólastiginu í landinu. Markmið samningsins er að efla umferðarfræðslu í skólum og reyna að fækka umferðarslysum með markvissri fræðslu. Samningurinn er milli Umferðarstofu og Grundaskóla og felur m.a. í sér að skólinn á að vera öðrum grunnskólum á Íslandi til fyrirmyndar og ráðgjafar á sviði umferðarfræðslu.

 

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra hefur beitt sér fyrir því að umferðaröryggismál eru nú orðin hluti af samgönguáætlun og hefur auknu fjármagni verið varið í málaflokkinn, eða 385 milljónum króna í núverandi áætlun. Á næsta ári verður þannig varið 60 milljónum króna til fræðslumála í skólakerfinu sem er veruleg aukning fjármuna í málaflokkinn. Hluti þeirra fjármuna rynnu nú í verkefnið sem hýst verður í Grundaskóla. “Það er markmið mitt og stjórnvalda að með auknum fjármunum til umferðaröryggismála og fræðslu í skólakerfinu náist árangur til bættrar umferðarmenningar hér á landi. Við ætlum að fækka slysum og því markmiði náum við einungis með aukinni fræðslu og forvörnum,” sagði Sturla.

 

Mekka umferðarfræðslu

 

Sturla upplýsti að í smíðum væri reglugerð í samgönguráðuneytinu sem tæki á því að hluti ökunáms í framtíðinni yrði akstur í svokölluðu ökugerði, en það er sérbyggt æfingasvæði fyrir verðandi ökumenn þar sem meðal annars eru hálkubrautir og þ.h. Fagnaði Sturla tillögu sem Gunnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi hefur flutt í bæjarráði Akraness þess efnis að slíku æfingasvæði yrði komið fyrir í nágrenni Akraness. Taldi Sturla að það ætti vel við að um leið og miðstöð umferðarfræðslu í landinu væri komin í Grundaskóla að slíkt ökugerði yrði byggt í nágrenni bæjarfélagsins. “Mekka umferðarfræðslu mun þannig geta risið í Grundaskóla og á Akranesi.”

 

Skóli skólanna

 

Karl Ragnars er forstjóri Umferðarstofu. Sagði hann í ávarpi sínu að um langt skeið hafi verið skortur á fræðsluefni í umferðarfræðslu fyrir grunnskóla. Fagnaði hann frumkvæði stjórnenda Grundaskóla sem hefðu boðist til að taka að sér þetta verkefni. “Grundaskóli er þar með orðinn skóli skólanna í umferðarfræðslu hér á landi,” sagði Karl og bætti því við að besta leiðin til að ná árangri í umferðinni væri með því að höfða til unga fólksins því það væri almennt mun móttækilegra fyrir fræðslunni og grunnskólinn hentaði vel þar sem nemendur á því skólastigi væru við það að hefja ökunám.

 

Sigurður Arnar er frumkvöðullinn

 

Guðbjartur Hannesson, skólastjóri Grundaskóla fagnaði samningnum sem nú væri kominn á og sagði að verkefnið móðurskóli umferðarfræðslu í landinu væri í senn verðugt og spennandi og hentaði vel hjá þeim. Í Grundaskóla væru kennarar sem hefðu mikla reynslu í umferðarfræðslu, bæði ökukennarar og nokkrir lögreglumenn væru auk þess meðal kennara skólans. “Sigurður Arnar Sigurðsson, deildarstjóri í Grundaskóla er sjálfur ökukennari og hefur hann átt veg og vanda að því að hrinda þessu verkefni í framkvæmd og mun stýra því hjá okkur,” sagði Guðbjartur. Hann sagði einnig að í tengslum við vinnu að gerð nýrrar vefsíðu um umferðarfræðslu hefði starfsfólk skólans skoðað markvisst hvaða námsefni væri í boði í umferðarfræðslu og þar hefði komið í ljós að námsefni fyrir miðstig grunnskólans vantaði og þyrfti að bæta úr því. Einna helst væri til námsefni fyrir yngstu börnin.

Í Grundaskóla munu þannig starfa verkefnisstjóri og hópur kennara sem sinna umferðarfræðslu sérstaklega. Viðkomandi svari fyrirspurnum frá öðrum skólum, skipuleggja og stjóra stuttum námskeiðum og fræðslufundum fyrir kennara í samráði við Umferðarstofu. Samningsaðilar í samstarfi við Námsgagnastofnun fylgja síðan eftir nýjum umferðarvef og kynna vefinn fyrir öðrum skólum samkvæmt sérstöku samkomulagi sem undirritað var fyrr á þessu ári.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is