Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
05. október. 2005 08:45

Uppsagnir afar sársaukafullar, en óhjákvæmileg aðgerð

Segir Ellert Kristinsson, framkvæmastjóri hjá Sig. Ágústssyni ehf.

 

Eins og fram hefur komið hafa stjórnendur Sigurðar Ágústssonar ehf. í Stykkishólmi tekið þá ákvörðun að hætta rækjuvinnslu hjá félaginu og hefur um 40 manns verið sagt upp störfum frá áramótum. Það hefur ekki farið framhjá neinum á undanförnum árum að rækjuiðnaðurinn á Íslandi hefur verið í mikilli kreppu. Fara þar saman gamalkunnar sveiflur í afurðaverði, hrun í veiðum við Ísland, gríðarleg samkeppni frá öðrum löndum og síðast en ekki síst sífellt styrkara gengi íslensku krónunnar. Það hefðu á árum áður þótt tíðindi að gjaldmiðill Íslendinga væri orðinn með þeim sterkustu á Vesturlöndum.

 

Þrátt fyrir allt sem að framan segir koma uppsagnir starfsfólk ávallt á óvart og valda eðli málsins samkvæmt óvissu. Ekki einungis hjá þeim sem verða fyrir því að vera sagt upp störfum heldur einnig í því samfélagi sem verður fyrir slíkum hlutum. Þegar elsta sjávarútvegsfyrirtæki í einkaeigu á Íslandi, sem hefur verið samofið byggð í Stykkishólmi um áratuga skeið, er knúið til þess að leggja niður heila atvinnugrein, rækjuvinnsluna, er eðlilegt að fólki sé brugðið. Því er ekki úr vegi að ræða málið við einn af stjórnendum fyrirtækisins.

 

Rækjuveiðar auknar vegna hruns í hörpudiski

 

Ellert Kristinsson, framkvæmdastjóri Sigurðar Ágústssonar ehf. þekkir sjávarútveginn vel eftir áratuga starf í greininni. Hann segir uppsagnirnar hafa verið afar sársaukafullar, en jafnframt óhjákvæmilegar, fyrir stjórnendur fyrirtækisins. Rækjuiðnaðurinn hafi orðið fyrir ótrúlegum áföllum á undanförnum árum og því megi í raun segja það ótrúlegt að ennþá skuli vera til fyrirtæki í þessum rekstri. Ellert segist vonast til þess að af þeim 40 starfsmönnum sem nú var sagt upp verði um 15 þeirra endurráðnir. Þrátt fyrir að rækjuvinnsla leggist af um áramót muni ennþá verða unnið í pökkunarstöð fyrirtækisins auk þess sem starfsemi við kavíarvinnslu muni verða haldið áfram auk starfsemi þess í Danmörku. Þá gerir fyrirtækið út línuskipið Gullhólma.

Þegar rækjuveiðar stóðu með mestum blóma við strendur landsins voru veidd milli 60-70 þúsund tonn af úthafsrækju auk 6-10 þúsund tonna af innfjarðarækju. Í dag er ástandið þannig að einungis eru veiðar leyfðar á 10 þúsund tonnum af úthafsrækju og 300 tonnum af innfjarðarækju. Í kjölfar hruns skelfiskmiða í Breiðafirði jók Sigurður Ágústsson ehf. við rækjuvinnslu sína með það að markmiði að minnka höggið af völdum hrunsins í hörpudiski. Einnig hefur á undanförnum árum verið fjárfest mikið í rækjukvóta. Þær heimildir hafa nú horfið í raun að sögn Ellerts, þar sem nú er ógjörningur að gera út á rækju vegna lélegrar veiði og mikils útgerðarkostnaðar í kjölfar mikillar hækkunar á olíuverði.

Eins og áður segir hefur samkeppni frá öðrum þjóðum sett nokkurt strik í reikning rækjuvinnslunnar á Íslandi. Ellert segir þeirri samkeppni hafa verið mætt með mikilli hagræðingu innan fyrirtækja hér með góðum árangri. Í kjölfar risavaxinna virkjana- og álversframkvæmda á Austfjörðum hóf íslenska krónan að styrkjast með þeim afleiðingum að útflytjendur fengu færri krónur fyrir vöru sína. Þá hafa og stýrivaxtahækkanir styrkt gengið enn frekar. Ellert segir gengisþróunina hafa endanlega gert útaf við rækjuvinnsluna auk þess sem hún hafi stórskaðað aðrar vinnslugreinar og í raun sé ekki séð fyrir endann á þeirri þróun að hans sögn. Hann segir það hafa verið ábyrgðarleysi hjá stjórnendum fyrirtækisins að halda áfram á þeirri braut sem fetuð hafi verið að undanförnu og því hafi í raun aðeins verið um einn kost að velja. Að hætta rækjuvinnslu. Ellert segir þessa niðurstöðu auðvitað eiga eftir að hafa töluverð áhrif á Stykkishólm sérstaklega í ljósi þess hversu stutt er síðan hörpudiskveiðar og vinnsla lögðust af. Hann vonar þó að úr rætist í atvinnumálum íbúa Stykkishólms þótt syrti að nú um stundir og sú gengisstefna sem nú ríkir í landinu taki enda áður en sjávarútvegurinn í heild verði fyrir óbætanlegum skaða.

Eins og áður kom fram töldu sjórnendur Sigurðar Ágústssonar ehf. enga aðra leið færa en að hætta rækjuvinnslu. Ellert segir uppsagnir starfsfólks það erfiðasta sem nokkur stjórnandi þurfi að taka sér fyrir hendur. Hann segir uppsagnirnar í síðustu viku hafa verið sérstaklega sársaukafullar vegna forsögunnar. Á undanförnum árum hafi, eins og áður sagði, þurft að grípa til mikilla hagræðingaraðgerða í rækjuvinnslunni. Sú hagræðing hafi skilað því að aldrei hafi nýting í vinnslu verið betri, afköst hafi aldrei verið meiri og þessum árangri hafi einungis verið hægt að ná í samvinnu við frábært starfsfólk. Því sé afar erfitt að sætta sig við það hlutskipti að vegna utanaðkomandi ástæðna hafi allur þessi mikli árangur í vinnslunni ekki dugað til.

 

Ríkisvaldið ræður ekki öllu á fjármálamarkaði

 

Erla Friðriksdóttir, bæjarstjóri í Stykkishólmi segir að forsvarsmenn bæjarfélagsins hafi í gærmorgun fundað með stjórnendum Sigurðar Ágústssonar ehf. vegna þeirrar stöðu sem nú er upp komin. Hún segir stöðuna í sjálfu sér ekki koma á óvart og bendir í því sambandi á ábendingar forseta bæjarstjórnar fyrr á þessu ári um slæma stöðu rækjuiðnaðarins. Erla segir atvinnuástand hafa verið gott fram að þessu og þrátt fyrir að hún vonist til þess að allir þeir sem sagt var upp fái vinnu að nýju sé ekki víst að eftirspurn sé eftir starfsfólki með þá sérhæfingu sem starfsfólk fyrirtækisins hafi og sveitarfélagið sem slíkt hafi fá eða engin úrræði til þess að tryggja því fólki sem hugsanlega missir vinnuna atvinnu á ný. Hún segir ljóst að þróun gengis krónunnar sé að koma mjög hart niður á sjávarútvegsfyrirtækjum víðs vegar um land. Slíkt geti ekki gengið öllu lengur eins og margoft hafi komið fram. Aðspurð hvort stjórnmálamenn við landsstjórnina hlusti ekki á samherja sína í sveitarstjórnum segir Erla það ekki vera aðal vandamálið. Nú ráði ríkisvaldið ekki öllu á fjármálamarkaði og því sé ekki eingöngu við stjórnmálamenn að sakast. Stjórnkerfi fiskveiða gerir ráð fyrir að hægt sé að bæta upp skerðingar vegna samdráttar í veiðum einstakra fisktegunda. Erla segir það sýna skoðun að þeim möguleika hafi ekki verið beitt með nægilega afgerandi hætti á undanförnum árum og því verði að breyta.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is